Gaf ekki upp tekjur sem námu 101 milljón

Embætti héraðssaksóknara gefur út ákæru í málinu
Embætti héraðssaksóknara gefur út ákæru í málinu mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður um fertugt hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir meiri háttar skattalagabrot í tengslum við rekstur á tveimur fyrirtækjum sem hann var í forsvari. Nema meint skattaundanskot mannsins samtals yfir 100 milljónum króna, en hann er meðal annars sakaður um að hafa ekki gefið upp tekjur upp á 101,3 milljónir.

Maðurinn er sakaður um að hafa í rekstri dyravarðafyrirtækis sem hann stýrði skilað inn efnislega röngum skattframtölum. Þannig hafi hann offramtalið innskatt um 41,4 milljónir í rekstri fyrirtækisins. Jafnframt er hann sakaður um að hafa vanframtalið tekjuskattstofn félagsins um 3,5 milljónir og samanlagt komist hjá því að greiða vegna þessa um 42 milljónir. Félagið er í dag gjaldþrota.

Þá er hann einnig sakaður um að hafa í rekstri verktakafyrirtækis sem hann var í forsvari fyrir komið félaginu hjá því að greiða 22,4 milljónir í virðisaukaskatt, en með honum í þeim hluta málsins er annar maður sem er ákærður fyrir hlutdeild upp á 5,3 milljónir.

Gaf ekki upp tekjur upp á 101 milljón

Fyrri maðurinn er svo ákærður fyrir að hafa á árunum 2015-2019 ekki gefið upp tekjur frá dyravarðafyrirtækinu upp á 82 milljónir árin 2017-2019 og frá öðru fyrirtæki upp á 19,3 milljónir árið 2015, samtals tekjur upp á 101,3 milljónir. Þar með hafi hann komið sér undan því að greiða tekjuskatt og útsvar upp á 44,5 milljónir.

Samtals nema því meint skattaundanskot mannsins 109 milljónum og þess sem ákærður er með honum 5,3 milljónum.

Farið fram á atvinnurekstrarbann

Auk þess sem farið er fram á refsingu yfir mönnunum er þess krafist af saksóknara að sá stórtækari verði með dómi dæmdur í atvinnurekstrarbann vegna skattsvikanna. Ef orðið er við því myndi honum verða bannað að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun eða fara með meiri hluta atvkæðisréttar í slíku félagi í allt að þrjú ár.

Heimild í lögum um að dæma menn í atvinnurekstrarbann tók gildi í janúar 2023. Fyrr á þessu ári komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þótt að sú meginregla væri í gildi að lög væru ekki afturvirk væri sú regla ekki fortakslaus. Þannig geti í tilvikum þegar lög geyma nýmæli og reglur, þar sem engra slíkra naut áður, komið til þess að afturvirkni sé beitt.

Þá hefur saksóknari í auknum mæli farið fram á að atvinnurekstrarbanni sé beitt þegar um meiriháttar skattalagabrot er að ræða síðan lögin tóku gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert