„Þetta snýst um þéttingaráform sem borgin hyggst herja á Grafarvogsbúa með og nú í þetta skiptið eru þeir með öll hverfin undir,“ segir Elísabet Gísladóttir, formaður Íbúasamtaka Grafarvogs, í samtali við mbl.is um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi sem leggst þungt á íbúa borgarhlutans.
Mótmæltu íbúarnir þéttingaráformunum harðlega á fjölmennum fundi íbúa allra hverfa Grafarvogs sem haldinn var á Borgarbókasafninu í Spönginni í fyrradag, en undir liggja átta af níu hverfum Grafarvogs sem borgin fyrirhugar að sögn Elísabetar að raska.
„Íbúar hafa verið mjög óhressir með þetta og verið þeirrar skoðunar að þetta komi til með að vera allt of þétt byggð og komi til með að breyta búsetuforsendum íbúanna,“ heldur hún áfram, „þannig að íbúar hafa verið að kalla eftir mótmælum og við kölluðum saman á þennan fund til að kanna hug íbúa og þar var húsfyllir. Íbúar skipuðu sér þar eftir hverfum og fengu þar tækifæri til að ræða það sem einkum færi fyrir brjóstið á þeim útbjuggu íbúar þar lista og var ályktun fundarins að fá Einar Þorsteinsson borgarstjóra á fund með íbúum og leyfa honum að heyra hvernig þetta leggst í þá,“ segir formaðurinn enn fremur.
„Við getum ekki lagt það á íbúa að melta þetta einn, tveir, þrír, við búum í þessu gróna hverfi þar sem áherslan er á náttúruna og við viljum halda í þessu grænu svæði sem stuðla að lýðheilu, andlegri, líkamlegri og félagslegri,“ heldur hún áfram.
Kveður hún íbúana sækjast eftir því umhverfi sem Grafarvogur bjóði þeim og því sæki þeir minna í miðborgina. „Við upplifum þessi skipulagsmistök með því að nýjum lífsstíl er þröngvað ofan í okkur án þess að til séu innviðir sem taka við þeim. Þarna eru hverfi sem voru hugsuð fyrir fólk sem aðhyllist bíllausan lífsstíl en af því að ekkert var hugsað um að sinna samgöngum þurftu allir að kaupa sér bíla og nú er bílum lagt þarna uppi á gangstéttum, uppi á grænum svæðum og hvar sem þú getur komið bílum fyrir,“ segir Elísabet.
Segir hún þá lausn sem borgin hafi boðið upp á hafa verið þá að greiða leigubíla fyrir íbúa í Gufuneshverfi. „Nú í dag upplifum við að þetta er allt að springa, það er allt stopp, við getum ekki tekið við fleiri íbúum og hér er verið að troða niður húsum fyrir framan útsýnissvæði og á umferðarmönum. Við skiljum ekki hvaða sjónarmið eru hér að baki, það er eins og verið sé að finna hér græn svæði og troða niður húsum þar,“ segir Elísabet og er augljóslega misboðið.
Hún segir málið vera að íbúum sé kynnt málið með þeim hætti að þeir geti farið inn á Borgarbókasafnið og skoðað einhverjar myndir. „Það eru ekkert allir læsir á þannig og fólki blöskrar hvernig borgin ætlar að troða þessu inn. Aðalskipulag og deiliskipulag eru til þess að vernda íbúa fyrir því að það sé verið að breyta svona hægri-vinstri, þetta er ekki hægt og þetta veldur óróa og reiði,“ segir Elísabet sem hefur sent borgarstjóra póst og boðið honum að koma og ræða við hvert hverfi fyrir sig.
„Hver íbúi er sérfræðingur í sínu nærumhverfi,“ segir Elísabet Gísladóttir, formaður Íbúasamtaka Grafarvogs, að lokum um hitamál sem vakið hefur umtalsverða óánægju í Grafarvoginum.