„Ég tek undir með Óla Birni,“ segir Jón Gunnarsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið þegar leitað er viðbragða hans við grein Óla Björns Kárasonar alþingismanns og flokksbróður hans í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann segir langlundargeð sitt þrotið gagnvart samstarfi við Vinstri-græna í ríkisstjórn. Ber greinin yfirskriftina „Hingað og ekki lengra“.
„Við endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins við brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur voru fjögur mál sett í forgang,“ segir Jón.
„Það eru efnahagsmálin og við erum á góðri vegferð þar að ná niður verðbólgu og vöxtum og vonandi heldur sú þróun áfram. Í öðru lagi ákváðum við að klára málefni öryrkja, sem tókst, og settum við inn í þann málalfokk myndarlegar fjárveitingar. Síðan voru það útlendingamál og orkumál. Nú hefur þessi samstarfsflokkur okkar hafnað frekara samtali um þau. Eins og kom fram hjá formanni flokksins í gær [í fyrradag], þá er ríkisstjórn, sem ekki getur tekið á þeim málum sem hún er sett saman um, í erindisleysu,“ segir hann.
Er ekki augljóst að ríkisstjórnin er komin á þann stað?
„Jú, miðað við þessar yfirlýsingar þá er það bara þannig.“
Og hvað svo?
„Það kemur bara í ljós. Formennirnir hljóta að sitja yfir þessu núna og við bíðum frétta af því hver niðurstaðan verður af því samtali.“
Styður þú áframhaldandi samstarf við Vinstri-græna?
„Ég tek undir það sem Óli Björn skrifar í dag [í gær] að það sé erindisleysa að halda þessu áfram við þessar aðstæður,“ segir Jón Gunnarsson.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag