Stærsta íshellafyrirtækið missir leyfið og kært til lögreglu

Íshellafyrirtækiið Niflheimar ehf. hefur misst starfsleyfi og verið kært til …
Íshellafyrirtækiið Niflheimar ehf. hefur misst starfsleyfi og verið kært til lögreglu. Samsett mynd

Vatnajökulsþjóðgarður hefur ákveðið að endurnýja ekki leyfi Niflheima ehf. sem hefur farið með flesta ferðamenn í íshellaferðir á Breiðamerkurjökli liðin ár. Þá hefur þjóðgarðurinn jafnframt ákveðið að kæra fyrirtækið til lögreglu fyrir ólöglegt ísbrot.

„Við höfum rökstuddan grun um að það fyrirtæki hafi verið að búa til aðgengi eða hella í Breiðamerkurjökli. Þær aðferðir sem notaðar voru teljum við einnig brjóta í bága við náttúruverndarlög, lög um þjóðgarðinn, stjórnun verndunaráætlunar þjóðgarðsins og þá samninga sem skrifað var undir,“ segir Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs. 

Að sögn hennar felst í hinni ólöglegu aðferð notkun hitablásara og gaselds til að búa til rásir í jökulinn.

Einn eigenda Niflheima segir að rætt hafi verið við þjóðgarðinn um notkun gass í fyrravetur. Steinunn segist hins vegar ekki muna hvort þau samskipti hafi átt sér stað.

Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði.
Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði.

Hafa rökstuddan grun 

27 leyfi voru fyrir íshellaferðum á Breiðamerkurjökli í fyrravetur. Þau verða hins vegar 25 nú að sögn Steinunnar. Hitt fyrirtækið sem ekki er með leyfi áfram er Icepick Journeys, en það er til rannsóknar hjá lögreglu eftir banaslys á jöklinum þann 25. ágúst síðastliðinn.

Voru Niflheimar eina fyrirtækið sem notaði slíkar aðferðir?

„Við vitum ekki hvort þetta hafi verið þeir (Niflheimar) sem hafi verið að gera þetta. Við höfum bara rökstuddan grun um það,“ segir Steinunn.

Niflheimar hefur verið stærsta fyrirtækið í íshellaferðum á Breiðamerkurjökli að sögn Steinunnar. Nýtt fyrirkomulag hefur verið tekið upp á jöklinum og sér fagráð um að gefa grænt ljós á þá hella sem notaðir eru hér eftir. Það samanstendur meðal annars af aðilum frá Ferðafélagi Austur- Skaftafellssýslu og er skipað af Þjóðgarðinum. Í FASK eru meðal annars forsvarsmenn fyrirtækja sem stundað hafa íshellaferðamennsku.

Furðu lostnir yfir ákvörðun  

Birgir Þór Júlíusson, einn þriggja eigenda Niflheima, segir eigendur fyrirtækisins furðu lostna yfir þessari ákvörðun. Hún hafi komið aftan að þeim og líður þeim eins og verið sé að búa til blóraböggla úr þeim vegna banaslyssins. Fyrirtækið hefur boðið upp á íshellaferðir frá árinu 2015 og var með um 35% markaðshlutdeild á síðasta ári að sögn Birgis.

Birgir Þór Júlíusson er leiðsögumaður og einn eiganda Niflheima ehf.
Birgir Þór Júlíusson er leiðsögumaður og einn eiganda Niflheima ehf. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að upphaflega hafi fyrirtækið boðið upp á ferðir í náttúrlegan íshelli sem heitir Kristall. Hins vegar hafi ásókn verið mikil og „eitrað“ samkeppnisumhverfi hafi komið niður á upplifun gesta. Því hafi fyrirtækið ákveðið að fara í minni hella með sína viðskiptavini, farið upp á jökul „í svelgi“ og gert aðgengi að þeim. Var það með leyfi Þjóðgarðsins að sögn Birgis.

„Þá er okkar fólk ekki fyrir hinum. Starfsfólkið og kúnnarnir voru ánægðir með þetta og við stuðluðum að dreifingu á jöklinum,“ segir Birgir. Hins vegar hafi fyrirtækið orðið þess áskynja fljótlega að óánægju gætti hjá öðrum fyrirtækjum með þetta fyrirkomulag. Segir Birgir þá að þetta hafi snúist um þann fjölda kúnna sem fyrirtækið var með á sínum snærum fremur en að málið snérist um upplifun kúnna.

Voru búin að ráða 12 manns 

Hann segir fyrirtækið hafa tekið að sér aðgengisvinnu árum saman. Meðal annars tekið niður stór stykki sem ógnuðu öryggi við náttúrlega hella sem fleiri fyrirtæki nota.

Eftir slysið hafi fyrirtækið hins vegar fundið fyrir því að þeir hafi ekki fengið aðgengi að borðinu hjá FASK þegar umræður spruttu um fyrirkomulag á jöklinum. Þeir hafi lítið spáð í það og stefndu að því að hefja íshellaferðir í október. Hins vegar fékk fyrirtækið bréf sex dögum áður en íshellatímabilið átti að byrja þess efnis að það fengi ekki endurnýjað leyfi. Þá hafði fyrirtækið ráðið 12 starfsmenn og keypt bíla til þess að sinna ferðum að sögn Birgis.

Segjast hafa sagt frá gasinu 

Niflheimar gerðu aðgengi að hellinum þar sem banaslysið varð

„Við sóttum um leyfi til að gera 44 tröppur ofan í svelg í fyrra, sem og aðgengi út úr hellinum.“

Er þetta hellirinn sem slysið varð í?

Já, en við fengum munnlegt leyfi hjá Steinunni þjóðgarðsverði til þess að fara í þessar framkvæmdir,“ segir Birgir.

Hann segir fyrirtækið líkt og önnur hafa stundað ísbrot árum saman og aldrei verið gerð athugasemd við þeirra vinnu.

„Við notuðum gas og annað til þess að rýmka rýmið til vinnu þarna. Þjóðgarðsvörður hringdi í okkur til þess að spyrja okkur um þessa gaskúta. Við sögðum frá því að við notuðum þá til þess að bræða ís og snjó. Það var ekkert spurt meira um það og allt í góðu,“ segir Birgir.

Hefðum ekki leyft notkun á gasi 

Steinunn Hödd segir að það „geti vel verið“ að fyrirtækinu hafi verið leyft að fara í aðgengisvinnu.

Spurð segist Steinunn Hödd ekki muna hvort þessi samskipti um gasið hafi átt sér stað. Hún útilokar það þó ekki.

„En ef þessi samskipti hefðu átt sér stað þá hefðum við aldrei leyft notkun á gasi,“ segir Steinunn.

„En við vorum ekki í stakk búin á síðasta ári til að fylgja öllum svona málum eftir. En stefnum að því að standa okkur betur,“ segir Steinunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert