„Málið er á borði stjórnar samkvæmt lögum. Ég hef gert stjórninni grein fyrir því að ég sé reiðubúinn að gegna starfinu áfram þegar núverandi ráðningartímabili lýkur á næsta ári.“ Þannig svarar Stefán Eiríksson útvarpsstjóri fyrirspurn Morgunblaðsins í smáskilaboðum, en hann var spurður hvort hann hygðist sækjast eftir endurráðningu í starf útvarpsstjóra sem blaðið hafði heimildir fyrir.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri kunngjörði stjórn Ríkisútvarpsins ohf. fyrir skömmu þann vilja sinn að halda áfram í starfi útvarpsstjóra. Jafnvel er búist við að gengið verði frá endurráðningu hans á stjórnarfundi síðar í þessum mánuði. Í 11. gr. laga um Ríkisútvarpið segir að útvarpsstjóra skuli ráða til fimm ára í senn og heimilt sé að endurráða hann einu sinni.
Stefán Eiríksson var ráðinn í starf útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins ohf. í lok janúar 2020 af stjórn félagsins og var hann valinn úr hópi 41 umsækjanda um starfið. Samkvæmt því rennur ráðningartími hans út í lok janúar á næsta ári. Útvarpsstjóri hefur daglegan rekstur Ríkisútvarpsins með höndum og er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag