Þátttaka langt frá því að vera viðunandi

Alma Möller landlæknir segist þakklát heilbrigðisráðherra fyrir að hafa stigið …
Alma Möller landlæknir segist þakklát heilbrigðisráðherra fyrir að hafa stigið þetta skref. mbl.is/Karítas

Þátttaka í brjóstaskimun hér á landi hefur ekki verið viðunandi í langan tíma, en undanfarin ár hefur hún verið um 52 til 54 prósent. Til að skimun skili þeim árangri sem lagt er upp með þarf þátttaka að vera 75 prósent.

„Árangurinn gæti verið betri. Þegar verið er að hanna skimun er miðað við einhver ákveðin viðmið og við viljum við auðvitað að þau náist. Þannig uppfyllum við þau skilyrði sem sett eru,“ segir Alma Möller landlæknir í samtali við mbl.is.

Heilbrigðisráðherra kynnti í morgun breytingar á gjaldtöku fyrir brjóstaskimun en gjaldið mun lækka úr rúmum 6.000 krónum í 500 krónur, sem er almennt komugjald og það sama og þarf að greina fyrir leghálsskimun. Kostnaður hefur verið hindrun fyrir margar konur og með því að lækka gjaldið eru bundnar vonir við að fleiri konur mæti í brjóstaskimun. 

Hægt að lækka dánartíðni um 40%

Alma er mjög þakklát Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra fyrir að hafa stigið þetta skref.

„Við vitum að viðunandi og nægileg þátttaka í brjóstaskimun er frumskilyrði þess að skimunin skili þeim árangri sem lagt er upp með, það er að greina mein snemma, þannig að meðferð geti hugsanlega orðið einfaldari fyrir konurnar og ódýrari fyrir samfélagið, og að skimun lækki dánartíðni,“ segir Alma, en greining á forstigi getur lækkað dánartíðni um allt að 40 prósent.

Um 200 konur greinast árlega með brjóstakrabbamein hér á landi og um 50 látast úr sjúkdómnum.

Tökum ekki alltaf réttar ákvarðanir

Alma segir fleiri konur mæta í skimanir á Norðurlöndunum, en hvergi er verið að ná 75 prósent þátttöku.

Þrátt fyrir að kostnaður sé vissulega hindrun fyrir margar konur þá eru líklega fleiri skýringar á dræmri þátttöku, en Alma segir erfitt að segja til um hverjar þær eru.

„Við vitum auðvitað að við eigum að mæta í skimun en við tökum ekki alltaf ákvarðanir sem eru bestar fyrir eigin hag. Kannski er þetta líka hraðinn í nútímasamfélagi og annað. Aðgengi að tímum og að geta bókað tíma er eitt sem konur nefna og það er unnið að því að gera það allt þægilegra.“

Alma segir þetta þó ekki hafa verið rannsakað hér á landi með vísindalegum hætti.

„Við sjáum í okkar gögnum hjá okkur að þetta eru yngstu konurnar og í sumum heilbrigðisumdæmum úti á landi, en það getur verið að aðgengi þar sé ekki nógu gott, og svo sjáum við að mæting er verri meðal kvenna af erlendum uppruna, en við vitum vissulega ekki hvort þær sækja skimun í sínu heimalandi.“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti breytingarnar í morgun.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti breytingarnar í morgun. mbl.is/Karítas

Meira þarf að koma til

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir lækkun á gjaldtöku við skimanir vera lið í heildarendurskoðun á greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu.

„Við stefnum að því að auka greiðsluþátttöku á öllum sviðum. Við höfum verið með starfshóp sem hefur verið að endurskoða krabbameinsáætlun og aðgerðaráætlun sem ég er að fara með í þingið og það hnígur margt að því að ekki hafi verið nógu mikið samræmi í gjaldtöku varðandi skimanir. Gjald fyrir skimun í leghálsi er 500 krónur þannig við erum að færa það til samræmis.“

Willum segir að sér hafi þótt það vel við hæfi að kynna breytingarnar í októbermánuði, þegar verið er að vekja fólk til vitundar um brjóstakrabbamein með árlegu árvekniátaki, og ryðja úr vegi þeirri hindrun sem kostnaður hefur hingað til verið.

Hann segir þó meira þurfa að koma til svo viðunandi árangur náist, það þurfi meðal annars að fræða og hvetja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert