Sveitarfélög á Íslandi hafa ekki náð að komast á sama stað í innviðafjárfestingum eins og var fyrir bankahrun. Sveitarstjórnarfólk þarf jafnframt að tala sig meira upp.
Þetta sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem hófst í morgun. Um er að ræða stærsta viðburð sambandsins á ári hverju.
„Við finnum fyrir því að það er komin veruleg innviðaskuld. Á sama tíma hefur á 20 árum fjölgað hér um 100 þúsund manns, þetta er ekki lítið sem við erum að tala um. Síðustu 10 ár hefur fjölgað um 60 þúsund manns. Þetta krefst gífurlegrar innviðauppbyggingar,“ sagði Heiða Björg, sem setti ráðstefnuna á Hilton Reykjavík Nordica í morgun.
Hún nefndi að þrátt fyrir skuldsetningar hefðu fjárfestingar sveitarfélaga aukist á síðasta ári. Í fyrra fjárfestu þau fyrir 76 milljarða króna, sem er um 14% af tekjum sveitarfélaga. Á sama tíma fjárfesti ríkið fyrir 100 milljarða króna, sem er um 7% af tekjum þess.
Hún sagði þetta sýna hvernig sveitarfélögin hefðu forgangsraðað í innviðum og fólkinu sínu við uppbyggingu samfélagsins. Þessu gætu þau verið stolt af.
„Allt þetta tal um að við stöndum íbúðauppbyggingu fyrir þrifum eða að við séum ekki að taka þátt, við getum algjörlega staðið keik á því að það er ekki rétt. Við gerum alveg eins mikið og mögulega jafnvel stundum aðeins meira,“ bætti hún við en tók fram að sveitarfélögin yrðu á sama tíma að standast fjármálareglur.
Heiða Björg kvaðst dást að sveitarstjórnarfólki og sagði það á mörgum sviðum vera að gera frábæra hluti. „Auðvitað verðum við líka að tala okkur svolítið upp. Við erum svo stór, við erum svo mikilvæg. Það skiptir svo miklu máli fyrir íbúa landsins að vita hvað við erum að gera,“ sagði hún og minnti á að sveitarfélögin ættu stóran hluta af innviðum íslensks samfélags.
Heiða Björg minntist í erindi sínu einnig á þau áhrif sem háir vextir og verðbólga hefðu haft á rekstur sveitarfélaga, talaði um að halda þyrfti áfram á sömu braut hvað snertir kjarasamninga, mikilvægi þess að veita fötluðu fólki góða þjónustu og um málefni barna.
Sömuleiðis minntist hún á endurbættan vef sambandsins sem er ætlað að vekja meiri athygli á störfum sveitarfélaga.