Það verða víða él á landinu í dag en bjartviðri verður á Suðausturlandi og það styttir upp suðvestan til eftir hádegi. Hitinn verður um eða rétt yfir frostmarkið að deginum.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að kalt loft þokist nú suður yfir landið og það gangi í norðan kalda eða strekking með éljagangi um landið norðanvert. Smálægð við vesturströndina sér til þess að einnig megi búast við einhverri slyddu eða snjókomu suðvestanlands, en lægðin fjarlægist í dag og eftir hádegi verður þurrt að mestu á suðurhluta landsins.
Á morgun verður norðvestan 10-15 m/s en dregur úr vindi vestanlands. Víða verður bjartviðri en búast má við stöku éljum á Norður- og Austurlandi og einnig við vesturströndina seint annað kvöld. Hiti breytist lítið.