Vill skoða aðrar lausnir til að verja byggðina

Frá höfninni í Grímsey.
Frá höfninni í Grímsey. mbl.is/Sigurður Bogi

Bjarkey Olsen matvælaráðherra íhugar nú að stofna spretthóp til að bregðast við viðkvæmri stöðu byggðar í Grímsey. Hún segir það sannarlega vera vilja sinn að halda byggð um allt land, ekki síst í eyjunni þar sem byggð hefur verið frá landnámi.

Fjórar fjölskyldur hafa auglýst hús sín til sölu og enn fleiri íhuga að yfirgefa eyjuna eftir að í ljós kom að útgerðunum í byggðarlaginu verði ekki veitt undanþága frá vinnsluskyldu í tengslum við byggðakvóta.

Telja útgerðarmennirnir það ekki standa undir kostnaði að koma á fót fiskverkun í eyjunni sem myndi uppfylla öll skilyrði.

Að sögn Bjarkeyjar mat Byggðastofnun það svo að ekki væri lengur unnt að veita undanþáguna. „Það væri betra að allir aðilar sætu við sama borð og töldu þau ekki hægt að mismuna landsmönnum með þeim hætti sem verið hefur og Grímseyingar þurfi að lúta sömu lögmálum og aðrir þegar kemur að úthlutun byggðakvóta.“

Byggðastofnun segir það hvorki falla undir verksvið né valdsvið þeirra að gefa út reglugerð til að veita undanþágur. Það sé hlutverk matvælaráðuneytisins.

Byggð muni leggjast af verði undanþága ekki veitt

Fiskveiðar eru aðalatvinnugrein Grímseyinga og hafa verið frá því að eyjan var byggð í kringum landnám.

Í byrjun árs voru íbúar eyjunnar 57 talsins, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Mun færri eru þar með fasta búsetu yfir árið, eða í kringum 20 manns, flestir sjómenn.

Útgerðarmenn sjá sér nú ekki kost annan færan en að flytja sig um set ef undanþága frá vinnsluskyldunni fæst ekki. Telja sumir að byggð muni leggjast af í eyjunni ef ákvörðuninni verður ekki snúið við.

Reglugerðin mjög skýr

Undanþága Grímseyinga var á grundvelli reglugerðar sem rann út árið 2019. Undanþágan hélt þó velli út síðasta fiskveiðiár, sem rann sitt skeið 31. ágúst, á grundvelli samnings sem hafði verið gerður er reglugerðin var í gildi.

Reinhard Reynisson, sérfræðingur Byggðastofnunar, segir í samtali við mbl.is stofnunina ekki hafa heimild til að veita undanþágu frá vinnsluskyldunni. Það sé hlutverk matvælaráðuneytisins.

„Það er ekki á verksviði og valdsviði Byggðastofnunar að setja leikreglurnar. Þetta aflamark byggir í fyrsta lagi á lagagrein um stjórn fiskveiða og í framhaldi af því setur matvælaráðuneytið reglugerð um það með hvaða hætti skuli vinna þetta verkefni,“ segir hann.

„Sú reglugerð er bara mjög skýr á því að það sé vinnsluskylda á því aflamarki sem er úthlutað samkvæmt reglugerðinni. Við höfum ekki fengið neitt um það að það standi til að breyta reglugerðinni.“

Lengi verið brothætt byggð

„Ég skil nú alveg allt það sem þau eru að glíma við í Grímsey, þetta er búið að vera brothætt byggð mjög lengi. Reglugerðin rann út. Byggðastofnun taldi sér ekki fært að veita þessa undanþágu áfram sem verið hefur,“ segir Bjarkey Olsen.

Það er ráðuneytisins að setja reglugerðir, er það ekki á endanum ráðuneytið sem tekur ákvörðun um hvort það verði sett reglugerð sem myndi veita þessa undanþágu eða ekki?

„Jú, það er þannig. Á endanum er það þannig að ef að er í rauninni alveg ljóst að það sé þörf á einhvers konar undanþágu þá er það mat hjá ráðuneytinu á hverjum tíma.“

Hún segir tvær útgerðir hafa sýnt því áhuga að koma á fót fiskvinnslum í Grímsey, sem töldu sig geta uppfyllt skilyrðin, en það hafi á endanum ekki gengið upp.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snúið að vera með fiskvinnslu í Grímsey

Hún segir það nú til skoðunar hjá ráðuneytinu hvort einhver önnur lausn komi til greina.

„Því sannarlega veit ég að það er snúið að vera með vinnslu í Grímsey,“ segir Bjarkey og heldur áfram:

„En ég er bara með það til skoðunar hérna inni í ráðuneytinu hvort það sé eitthvað annað sem að við getum gert til að styrkja byggðina í Grímsey og hef hugsað mér að setja af stað spretthóp til að fara yfir þessi mál. Vilji minn er að það sé byggð um allt land og ekki síst í eyjunni þar sem hefur verið byggð frá landnámi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert