Ef fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir kennara í að minnsta kosti átta skólum raungerast mun það hafa alvarleg áhrif á stöðu barna.
Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í morgun.
„Falli skólahald niður vegna verkfalla þá hefur það gríðarleg áhrif á stöðu barna og ungmenna, við sáum það bara í heimsfaraldrinum og öllum rannsóknum og öðru sem lýtur að því. Langvarandi verkföll hafa alvarleg áhrif gagnvart stöðu barna, námi þeirra og rútínu. Kannski sérstaklega gagnvart börnum í viðkvæmri stöðu,“ segir Ásmundur.
Kennarar í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum og einum framhaldsskóla hafa samþykkt að leggja niður störf 29. október, verði ekki búið að semja fyrir þann tíma.
Eftir skamma stund mun koma í ljós hvort kennarar í ótilgreindum tónlistarskóla hafi samþykkt verkfallsboðun. Atkvæðagreiðslu lauk klukkan 15.
Kennarasamband Íslands tilkynnti svo í gær að til skoðunar væri að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall í öðrum ótilgreindum framhaldsskóla.
Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á þriðjudag. Mætir þá viðræðunefnd Kennarasambandsins sem er skipuð formönnum aðildarfélaganna sjö og formanni KÍ, til fundar með samninganefndum sveitarfélaga og ríkisins.
Ásmundur segir að ábyrgð samningsaðila sé mikil og hvetur hann alla til þess að nálgast verkefnið þannig að hægt verði að afstýra verkföllunum.
Ertu bjartsýnn á að það takist að semja áður en verkföll hefjast?
„Það verður að höfða til ábyrgðar þeirra sem þarna eru. Eins og ég segi, þetta hefur mikil áhrif á stöðu barna þannig ég hvet alla samningsaðila til að nálgast verkefnið af ábyrgð,“ svarar hann.