Birta Hannesdóttir
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tekur undir með Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni flokksins, að nauðsynlegt sé að koma á vinnufriði í ríkisstjórninni svo hægt sé að vinna að þeim málum sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um.
Þetta segir Hafdís í samtali við mbl.is.
Sigurður Ingi birti færslu á Facebook í dag þar sem hann sagði það ákaflega brýnt að það skapist vinnufriður í ríkisstjórn. Ef hinir stjórnarflokkarnir treysti sér ekki til að standa við og vinna að stjórnarsáttmálanum yrði það að koma fram á allra næstu sólarhringum.
Hafdís segir ekki um afarkosti að ræða heldur sé nauðsynlegt að fá vinnufrið svo hægt sé að klára ákveðin mál.
Sérðu fram á að það skapist vinnufriður?
„Já já, ef við getum öll komið okkur saman um að vinna að því sem við höfum skuldbundið okkur til þess að gera þá eru allir vegir færir. Ég kannski þjáist af bjartsýni en ég held það sé hægt,“ segir Hafdís.
Aðspurð segir Hafdís að ekki hafi verið boðað til þingflokksfundar Framsóknar en það sé eitthvað sem sé í stöðugri skoðun hjá flokknum.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði um stöðu ríkisstjórnarinnar í Valhöll í gær. Mikil ólga hefur verið á stjórnarheimilinu. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason og Jón Gunnarsson, hafa sagt erindi stjórnarinnar vera komið að þrotum vegna þess að Vinstri græn vilji ekki gera meira í útlendingamálum og orkumálum.