„Gætu varpað jákvæðu ljósi á það að vera með ADHD“

Margrét Snorradóttir, meistaranemi í reikniverkfræði við Háskóla Íslands og starfsmaður …
Margrét Snorradóttir, meistaranemi í reikniverkfræði við Háskóla Íslands og starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar. Íslensk erfðagreining/Jón Gústafsson

„Það eru margar rannsóknir til um ADHD en flestar eru svolítið að einblína á neikvæðu hliðarnar, þ.e. lélega tímastjórnun eða ábyrgðarleysi til dæmis,“ segir Margrét Snorradóttir, meistaranemi í reikniverkfræði við Háskóla Íslands og starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar, en hún stendur að baki nýrri rannsókn sem rannsakar erfðir og tengsl sköpunargáfu við ofureinbeitingu og taugaþroskaraskanir svo sem ADHD.

„Til að byrja með var þetta samtal á milli Íslenskrar erfðagreiningar og ADHD-samtakanna um að fara í rannsókn þar sem niðurstöðurnar gætu varpað jákvæðu ljósi á það að vera með ADHD,“ segir Margrét og tekur fram að jákvæðir hlutir geti fylgt því að vera með athyglisbrest og ofvirkni.

„[...] og þegar við lögðum til rannsóknarvinnu um hugsanlegar jákvæðar hliðar þá sáum við að flestar rannsóknir nefndu sköpunargáfu í upplifunum einstaklinga með ADHD. Að þeir væru skapandi. Þá fór af stað þessi hugmynd um að rannsaka erfðir sköpunargáfu og tengingar við ADHD.“

Með öðruvísi hugsunarhátt og einbeitingarmynstur

Aðspurð segir Margrét að aldrei hafi verið gerð genatengd rannsókn á tengslum sköpunargáfu og ADHD og þær rannsóknir sem eru til séu litlar og sérstaklega tengdar börnum.

„Við erum, ólíkt því, að skoða fullorðna einstaklinga með ADHD og sköpun þeirra.“

Eruð þið með einhverjar fyrirframgefnar hugmyndir um hvaða niðurstöður þið gætuð fengið úr rannsókninni?

„Fræðin, hingað til, segja að fólk með ADHD sé með í rauninni öðruvísi hugsunarhátt og öðruvísi einbeitingarmynstur og sá þáttur sköpunargáfu sem við erum að skoða, sem er þessi margbreytilegi hugsunarháttur, það er líklegt að það sé einhver tenging þar á milli og það gætu jafnvel verið sömu gen og stjórna sköpun sem stjórna einhverjum þáttum ADHD.“

Rannsóknin er hluti af meistararitgerð Margrétar í reikniverkfræði við Háskóla …
Rannsóknin er hluti af meistararitgerð Margrétar í reikniverkfræði við Háskóla Íslands. Íslensk erfðagreining/Jón Gústafsson

Einblínt á sundurhverfa hugsun

Hvaða vinkla sköpunar er verið að taka fyrir?

„Við erum þá sérstaklega að tala um hversdagslega sköpunargáfu, ekki endilega einhver svona listræn afrek eða gjörningaverk. Meira svona skapandi hugsunarhátt,“ segir Margrét og nefnir að almennt sé talað um tvo þætti við skapandi hugsunarhátt.

Eru það samleitin hugsun, sem snýr að því að geta hugsað innan þess ramma sem er mögulegur og fundið viðeigandi lausnir við vandamálum, og svo sundurhverf hugsun, sem er það sem rannsóknin einblínir meira á.

„Við erum meira að skoða þá hvernig fólk getur myndað nýjar tengingar, hugsað út fyrir kassann og fundið frumlegar lausnir við vandamálum.

Við gerum það með því að fá fólk til þess að taka örstutt próf sem byggist á því að nefna ólík orð og það kveikir einmitt á öllum þessum ferlum í hausnum sem eru að búa til nýjar tengingar og hugsa skapandi.“

Rannsóknin hluti af meistaraverkefni

Hvenær lýkur rannsókninni?

„Við ætlum að reyna að safna þó nokkuð mörgum þátttakendum. Við höfum verið að tala um 30.000 þannig að við ætlum að reyna að halda henni opinni í alveg nokkrar vikur.

Síðan er þessi rannsókn hluti af meistaraverkefninu mínu í reikniverkfræði og ég á að skrifa ritgerð sem verður skilað í vor. Þá þarf ég að vera komin með einhverjar niðurstöður þannig að mér þykir mjög líklegt að við byrjum að vinna úr einhverjum gögnum í nóvember,“ segir Margrét Snorradóttir og hvetur hún jafnframt alla til taka þátt í rannsókninni óháð því hvort fólk telji sig vera skapandi eður ei.

„Við viljum bara fá sem flesta þátttakendur.“  

Hægt er að taka þátt í rannsókninni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert