Kári Freyr Kristinsson
Ekki liggur fyrir hvort Halla Tómasdóttir forseti Íslands fundi með fleirum en Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á morgun. Það má gera ráð fyrir að hún gefi sér tíma til að ræða við formenn allra stjórnmálaflokka og forseta Alþingis.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Unu Sighvatsdóttur, sérstaks ráðgjafa hjá embætti forseta Íslands, við fyrirspurn mbl.is.
Bjarni gengur á fund forseta Íslands kl. 9 í fyrramálið þar sem hann mun leggja fram tillögu um þingrof.
Í dag greindi Bjarni frá því á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu að hann myndi slíta ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna.