„Allt sem ég gerði var með hag WOW í huga,“ sagði Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þrátt fyrir að það séu rúmlega fimm og hálft ár frá gjaldþroti flugfélagsins var Skúli enn og aftur spurður spjörunum úr um aðdraganda gjaldþrots flugfélagsins í marsmánuði 2019.
Næstu vikur fer fram aðalmeðferð í ellefu riftunar- og skaðabótamálum gegn stjórnendum WOW air og tryggingafélögum. Málið er umfangsmikið og flókið og málsgögn þess þúsundir blaðsíðna.
Í stuttu máli er farið fram á riftun greiðslna til kröfuhafa, og að forstjóri og/eða stjórnendur verði dæmdir til greiðslu skaðabóta sem samsvara fjárhæð riftunarinnar, þ.e.a.s. hátt í tveir milljarðar. Skiptastjórar þrotabúsins telja greiðslur hafa verið gerðar á vafasömum tíma í sögu félagsins og að kröfuhöfum hafi verið mismunað.
Frá rúmlega 08:30 til klukkan 13:30 fór fram skýrslutaka yfir Skúla, að undanskildu klukkustundar hádegishléi. Þar á eftir fór fram skýrslutaka yfir Liv Bergþórsdóttur, fyrrverandi stjórnarformanni og núverandi forstjóra Bioeffect, og stóð sú skýrslutaka til rúmlega 16.
Hér verður skýrslutökum þessara tveggja forsvarsmanna hins fallna flugfélags fléttað saman.
Skúli hóf daginn á að fara yfir sögu WOW air og aðkomu hans að félaginu.
Flugfélagið var stofnað árið 2011 og var hugmyndin að fara í sólarlandaferðir og borgarferðir. Fyrsta flugferðin var árið síðar og sagði Skúli næstu ár félagsins hafa gengið vel.
Liv kom inn í stjórn félagsins árið 2012 og í september sama ár varð hún stjórnarformaður.
Þau tvö, ásamt Helgu Hlín Hákonardóttur og Davíð Mássyni, sátu í stjórn WOW er það varð gjaldþrota.
Stjórnarmönnunum fjórum, auk tryggingafélaganna Eurocontrol, DUAL Corporate Risks Limited, Liberty Mutual Insurance Europe Limited, Everest Syndicate 2786 at Lloyd’s og Everest Syndicate, Hardy Syndicate 382 at Lloyd’s og QBE UK Limited, er stefnt í riftunarmálunum ellefu.
Liv sagði stjórnina hafa verið fullmeðvitaða um ábyrgðina sem lá á þeim er halla tók í rekstrinum. Á einum tímapunkti lýsti hún ábyrgðinni sem „yfirþyrmandi“.
Árið 2017 voru miklar fjárfestingar settar í að setja á laggirnar viðskiptafarrými. Skúli sagði að eftir á að hyggja hefðu það reynst mistök.
Þá nefndi hann samkeppni við Icelandair á þessum tíma. Skúli lýsti því sem „blóðugu verðstríði og gríðarlegri samkeppni”.
Á þeim tíma var hugað að frekari fjármögnun félagsins og rætt við fjölmarga aðila þess efnis, en afkoma félagsins var neikvæð um tvo og hálfan milljarð árið 2017.
Liv lýsti árinu 2017 sem ári „vaxtaverkja“ hjá WOW air.
Skúli sagði að stjórnendur hefðu farið „brattir“ inn í sumarið 2018 en á sama tíma hefði olíuverð hækkað allverulega. Hann sagði að olía hefði hækkað um 50% á milli áranna 2017 og 2018. Skúli sagði það hafa haft veruleg áhrif á rekstur WOW, sem og annarra flugfélaga.
Í september árið 2018 var farið í skuldabréfaútboð þar sem söfnuðust 6,8 milljarðar króna. Skúli og Liv sögðust bæði hafa haldið að ró myndi færast um félagið eftir útboðið.
Það snerist hins vegar í andhverfu sína þar sem fréttaflutningur fyrir útboðið snerist um tap ársins 2017. Liv sagði umfjöllunina meðal annars hafa leitt til dræmrar þátttöku í útboðinu.
Skúli sagði neikvæða umfjöllun fjölmiðla hafa haft gríðarleg áhrif á flugfélagið. Hann nefndi að sala á innlendum markaði hefði minnkað í lok árs 2018 sem hann sagðist rekja beint til fréttaumfjöllunar.
Spurður hver viðbrögð stjórnenda við erfiðleikum í rekstrinum hefðu verið svaraði Skúli að farið hefði verið á fullt að leita allra leiða, meðal annars með hagræðingaraðgerðum og leitað var að fjárfestum.
Liv sagði þau öll hafa verið vakin og sofin yfir því verkefni, þ.e.a.s. að tryggja rekstur félagsins. Hún sagði að árið 2019 hefði stjórnin verið í „krísustjórnun“ alla daga.
Þau sögðu bæði kröfuhafa hafa verið upplýsta um stöðu mála.
Bæði í skýrslutöku Skúla og Livar var eytt miklum tíma í að ræða viðræður um fjárfestingu annars vegar Icelandair og hins vegar Indigo Partners LLC í WOW air.
Skúli og Liv lýstu því fyrir dómi að stjórnin hefði haft það að markmiði og trúað því af heilindum að samningar myndu nást við Indigo. Fjárfestingin átti að geta numið allt að 90 milljónum Bandaríkjadala en það slitnaði úr þeim viðræðum 21. mars 2019.
Þá lauk viðræðum við Icelandair 24. mars og 28. mars var WOW air tekið til gjaldþrotaskipta.
Skúli vildi meina að lýsa hefði þurft yfir gjaldþroti þar sem vélar félagsins voru kyrrsettar af leigusölum vestanhafs kvöldið áður. Hann sagðist telja að ef það hefði ekki gerst væri alveg eins líklegt að Indigo ætti félagið í dag.
Spurð út í verklag vegna greiðslna félagsins svöruðu Skúli og Liv að undir það síðasta hefði verið unnið eftir skýrri stefnu. Tryggja þyrfti flugrekstur og –öryggi, auk þess að greiða starfsfólki laun.
Kvöldið er vélar félagsins voru kyrrsettar voru þær forsendur brostnar og því ekki annað í stöðunni en að lýsa félagið gjaldþrota.
Þau sögðust bæði ekki hafa komið að greiðslu einstakra reikninga heldur hafi það verið í höndum fjármálasviðs félagsins undir stjórn fjármálastjóra. Stefán Eysteinn Sigurðsson var fjármálastjóri WOW en hann lést árið 2023.
Liv sagði stjórnina hafa gefið út fyrirmæli um hvernig ætti að forgangsraða greiðslum eftir áðurnefndri stefnu. Sú stefna hefði meðal annars verið mótuð í samvinnu við Samgöngustofu.
Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabúsins, sagði að svo virtist sem hver benti á annan varðandi greiðslur félagsins. Hann sagði fjármálastjórann eitt sinn hafa sagt stjórnina bera ábyrgð á þeim en stjórnin benti á fjármálastjórann.
Liv ítrekaði að stjórnin hefði sett stefnu um forgangsröðun greiðslna en hefði ekki sjálf séð um að greiða reikninga.
Næstu daga fara fram vitnaskýrslur áður en málflutningur allra ellefu málanna hefst á föstudag. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð í málinu ljúki 1. nóvember.