Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, ræddi við formenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna í gærkvöldi. Þá segist hún ætla að gefa sér tíma í að ræða við aðra formenn flokka á þingi og að í kjölfarið muni hún svo leggja mat á stöðu mála áður en hún tekur afstöðu til þingrofstillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.
Þetta kom fram í máli Höllu að loknum fundi hennar með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á Bessastöðum nú rétt í þessu.
Bjarni hélt á Bessastaði til að leggja fram tillögu sína um þingrof og almennar kosningar í lok nóvember.
Halla ávarpaði blaðamenn stutt að loknum fundi og vísaði þar til laga um að ef hún myndi fallast á þingrofstillöguna ætti að boða til kosninga innan 45 daga frá því að tilkynnt er um þingrof. Þá sagði hún Bjarna hafa lagt til að núverandi ríkisstjórn myndi sitja til kosninga, líkt og Bjarni hafði áður greint frá að hann myndi leggja til.
Sagðist hún hafa átt samtal við formenn hinna stjórnarflokkanna í gærkvöldi og að hún hygðist gefa sér tíma til að ræða við aðra formenn flokka sem sætu á Alþingi í kjölfarið.
„Að þeim fundum loknum mun ég leggja mat á stöðu mála áður en ég tek afstöðu til tillögunnar. Ég mun svo gera grein fyrir ákvörðun minni síðar í vikunni.“
Sagðist hún að lokum að hún myndi ekki taka við neinum spurningum. „Því hef ég engu við þetta að bæta að sinni.“