Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ólíka sýn sína og hinna formanna stjórnarflokkanna hafa orsakað það að hann lagði fram þingrofstillögu til forseta aðeins í sínu nafni en ekki allra formannanna. Hann hafi metið það svo að engin von væri til þess að finna lausnir í mikilvægum málefnum og því væri ekki ábyrgt annað en að ganga til kosninga.
Eftir fund sinn með Höllu Tómasdóttur forseta Íslands, þar sem Bjarni lagði fram þingrofstillöguna, vísaði hann til þess að Vinstri græn hefðu nýverið verið búin að kveða upp úr með það að komið væri að leiðarlokum hjá ríkisstjórninni. Þau hafi verið farin að velta fyrir sér öðrum þinglokadegi og kosningadegi. Eftir landsfund Vinstri grænna, þar sem meðal annars var lögð fram tillaga um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu, sagði Svandís Svavarsdóttir, nýr formaður flokksins, að hún teldi rétt að halda kosningar í vor, en ekki næsta haust, líkt og ætti að gera ef stjórnin myndi sitja heilt kjörtímabil.
Sagði Bjarni eina birtingarmynd þess að stjórnin væri ósamstíga koma fram í formennirnir legðu ekki sama mat í stöðuna. Ítrekaði hann svo meðal annars afstöðu sína í orkumálum sem hann hafði lagt áherslu á í gær þegar hann greindi frá því að hann myndi óska eftir þingrofi.
„Ég hef verið í þessu samtali í of mörg ár til að láta telja mér trú um það að við getum leyst úr og fengið sameiginlega sýn á nýtingu orkunnar inn í framtíðina fyrir atvinnulífauppbyggingu, orkuskipti og svo framvegis á einhverjum vikum eða dögum sem framundan eru þannig að þetta mál verði leyst farsællega í þessu stjórnarsamstarfi.“
Tók hann fram að um fleiri mál væri að ræða sem væru óleyst.
Bjarni sagði hins vegar að mikilvægt væri að afgreiða mál eins og fjárlög og benti hann á að fjármálaáætlun hefði þegar verið samþykkt. Lagði hann áherslu á að ekki væri þar farið fram úr sér og að aðhaldi yrði gætt. „Er í engum vafa um að ef menn bara fylgja þessu einfalda ráði að hafa sama aðhald við afgreiðslu fjárlaga og birtist í fjárlögunum sjálfum nú við framlagningu þá þurfum við engar áhyggjur að hafa af einhverjum slæmum afleiðingum þess að kjósa fyrir lok árs.“
Bjarni var spurður hvort að reynt yrði að leggja fram fleiri mál fram að þinglokum en fjárlög. Sagði hann það ráðast af því hvernig menn vildu starfa í aðdraganda kosninga. Nefndi hann til dæmis samgönguáætlun. Sagði hann hægt að afgreiða það mál, en að ekki ætti að gera of mikið úr því hvort það yrði afgreitt fyrir eða eftir kosningar.