Veltur á því hvenær þingrof gengur í gegn

Svandís Svavarsdóttir formaður VG gekk til fundar við forseta í …
Svandís Svavarsdóttir formaður VG gekk til fundar við forseta í dag. mbl.is/Arnþór

„Við vorum bara að fara yfir stöðuna rétt eins og hinir formennirnir, veruleikann sem við blasir og þann vilja minn að Bjarni bæðist lausnar,“ segir Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, um fund sinn með forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur.

Segir hún að aðdragandi ríkisstjórnarslitanna hafi einnig verið ræddur sem og næstu skref sem tekin verða.

Það sem þingið er kjörið til að gera

Hvernig sérðu fyrir þér næstu skref með tilliti til fjárlaga og annars?

„Ég held að Alþingi hafi fulla burði til þess að glíma við fjárlög og fjárlagafrumvarpið. Við höfum reyndar einu sinni áður gert það í mínu minni að þingið hafi lokið fjárlagavinnu, meira að segja þó það væri engin ríkisstjórn í landinu,“ segir Svandís.

„Það er það sem þingið er kjörið til að gera, það er að ljúka stórum og flóknum málum, og ég held að það sé vilji til þess hjá stjórnarandstöðunni að taka þátt í ábyrgri afgreiðslu þeirra mála.“

Tímasetning kosninga kom ekki til tals

Sérðu fyrir þér að geta starfað með Sjálfstæðisflokknum fram að kosningum?

„Þetta þarf bara allt saman að koma í ljós og við þurfum bara að sjá hvernig þessum dögum sem fram undan eru vindur fram. Ég get ekki svarað þessu akkúrat núna. Ég held að það kunni að vera einhverjir möguleikar í stöðunni sem við komum ekki auga á núna en það eru samtöl í gangi og við þurfum að leyfa þeim að hafa sinn gang.“

Kom tímasetning kosninga til tals á fundinum?

„Ekki á þessum fundi, nei. Ég held að það, í meginatriðum, liggi fyrir.“

Verður það þá 30. nóvember?

„Þetta veltur á því hvenær þingrof gengur í gegn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka