„Mjög alvarlegur atburður“

Vegna rofs á fjarskiptasambandi fyrir norðan í gær var samband …
Vegna rofs á fjarskiptasambandi fyrir norðan í gær var samband mjög stopult í Tetra-kerfinu, sem Neyðarlínan rekur. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Colourbox

„Þetta horfir við okkur sem mjög alvarlegur atburður,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, spurður út í þá bilun sem átti sér stað hjá fjarskiptafyrirtækinu Mílu á Akureyri í gær.

Vegna rofs á fjarskiptasambandi fyrir norðan var hvorki hægt að notast við samskipti í gegnum síma né net og þá var samband mjög stopult í Tetra-kerfinu, sem Neyðarlínan rekur.

„Hluti af farsímakerfinu datt út sem gerði það að verkum að fólk gat ekki hringt í 112 en síðan er það hin alvarlega hliðin á peningnum, að hluti af Tetra-fjarskiptakerfinu varð algjörlega sambandslaus og það er eitthvað sem má ekki gerast,“ segir Jón Svanberg við mbl.is.

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. Ljósmynd/Aðsend

Tilkynnt sem öryggisatvik

Hann segir að ekki hafi allir símar á svæðinu verið sambandslausir en stór hluti þeirra, sem er mjög alvarlegt mál.

„Við höfum tilkynnt þetta sem öryggisatvik til Fjarskiptastofu eins og okkur ber skylda til samkvæmt fjarskiptalögum og bíðum eftir formlegri niðurstöðu frá Mílu. Eftir það getum við farið að greina til hvaða ráðstafana er hægt að taka svo þetta gerist ekki aftur,“ segir Jón Svanberg.

Á heimasíðu Neyðarlínunnar kemur fram meðal annars:

„Neyðarlínan sér um neyðar- og öryggisþjónustu á Íslandi. Neyðarlínan boðar björgunar- og neyðarsveitir á öllu landinu og er tengiliður milli almennings og viðbragðsaðila.

Hlutverk Neyðarlínunnar er að veita fyrsta flokks neyðaröryggisþjónustu og stuðla þannig að því að mannslífum sé bjargað og umhverfi, eignir og mannvirki séu varin fyrir skakkaföllum. Þar með er dregið úr afleiðingum slysa og náttúruhamfara.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka