Þrisvar á síðustu 30 árum hefur mjög slæmt veður gengið yfir landið 30. nóvember; árin 2006, 2007 og 2014. Fleiri óveður hafa orðið dagana í kringum kjördag, þó ekki mörg en einhver.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur skoðaði veðrið 30 ár aftur í tímann vikuna í kringum kjördag, eða frá 27. nóvember til 3. desember. Segir hann niðurstöðuna vera að um 3-5% líkur séu á verulega slæmu veðri á landsvísu á kjördag, sem myndi setja hluti úr skorðum.
Að auki bendir hann á að ýmislegt óvænt geti komið upp. Þar nefnir hann rafmagnstruflanir af völdum veðurs, óvænta mikla snjókomu í stærri bæjum og jafnvel á höfuðborgarsvæðinu og staðbundnar vindhviður sem lokað gætu þjóðvegum til lengri tíma.
Í tíu af þessum 30 árum eða 33% áranna hafi tíðin verið mjög góð, fínasta veður og ekkert sem var til truflunar.
Í 25-30% áranna 30 hafi verið illviðrakafli sem gekk yfir og var ríkjandi með lægðagangi. Góðir dagar hafi verið inni á milli og ekkert endilega mjög slæmt veður.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.