Greiningar hvers konar hafa þanist út

Greiningar hvers konar hafa þanist út, eins og kulnun og ADHD og þetta er mikil breyting á síðustu árum, segir Óttar Guðmundsson geðlæknir í viðtali í Dagmálum. Hann hefur efasemdir um að þetta sé til góðs.

Hann tekur kulnun sem dæmi og segir að það sé hlutur sem ekki hefði þýtt að bera á borð fyrir fimmtíu til hundrað árum.

Erum við að ofgera okkur í þessu?

„Já. Mér finnst það. Þetta er orðið dálítið mikið einhvern veginn, öll þessi kulnunarumræða, kvíðaumræða, sorgarumræða og áfallastreituröskunarumræða. Þetta er eitthvað alveg nýtt.“ Hann segir vissulega vera nýja og breytta tíma og fólk sé miklu meðvitaðra um sig og sín geðheilsu. Að sama skapi segir hann það alveg nýtt hvað fólk hafi miklu meiri tíma og þá ekki síst til að spekúlera í sjálfu sér og sinni eigin heilsu. Þetta hafi haft það í för með sér að vinnuumhverfi geðlækna hafi breyst mjög mikið.

Fyrstu geðlæknarnir mæta á bráðamóttökuna

Hann skrifaði einu sinni grein þar sem hann setti tvo fyrstu geðlækna Íslands inn í nútíma aðstæður. Hann segir greinina hafa verið fantasíu og hvernig þeir Helgi Tómasson og Þórður Sveinsson myndu mæta á bráðamóttöku geðdeildar og sitja þar með vakthafandi lækni. Óttar fékk bágt fyrir greinina og olli hún miklu fjaðrafoki. En niðurstaðan var sú að þeir Helgi og Þórður hefðu sagt að það væri ekkert að þessu fólki, „eins og við skilgreinum það.“ skrifaði Óttar. Hann heldur áfram. „Þá sagði Þórður, það eina sem er að þessu fólki er að því leiðist.“

Óttar skrifaði þessa grein til að vekja athygli á þeim miklu breytingum sem hafa orðið. Og hann veltir upp spurningunni hvort hluti af vandanum sé að fólki leiðist? Sé með of miklar kröfur til lífsins.

Hér held ég að fólk skiptist alveg í tvennt sem er að hlusta á okkur. Annars vegar; Ja það var mikið að einhver sagði þetta og svo hitt. Þetta er nú bara kaldlyndur karlrembufauskur.

„Já. Hann er það náttúrulega í sjálfu sér,“ svaraði Óttar.

Þátturinn er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka