„Rarik seldi vöru og sú vara er ónýt“

Áætlað er að ríf­lega 15.500 heim­ili og fyr­ir­tæki hafi verið …
Áætlað er að ríf­lega 15.500 heim­ili og fyr­ir­tæki hafi verið á meðal þeirra viðskipta­vina RARIK sem urðu fyr­ir áhrif­um raf­magns­leys­is og trufl­un­um í byrjun október. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Í mínum huga þá snýst bara málið um það að Rarik seldi vöru og sú vara er ónýt. Afleiðingin af því er að ég verð fyrir tjóni. Svo segja þeir bara: „Við ætlum ekkert að bæta þér allt tjónið“,“ segir Guðrún María Valgeirsdóttir, íbúi í Reykjahlíð.

Í dag var haldinn íbúafundur í Skjólbrekku í Þingeyjarsveit þar sem fulltrúar Rarik og Landsnets fóru yfir atburðarásina 2. október sem leiddi til víðtækra raf­magnstrufl­ana í sveit­ar­fé­lag­inu.

Áætlað er að ríf­lega 15.500 heim­ili og fyr­ir­tæki hafi verið á meðal þeirra viðskipta­vina Rarik sem urðu fyr­ir áhrif­um raf­magns­leys­is og trufl­un­um í byrjun október.

Lenda á milli félaga

Guðrún segir að aðalatriði málsins sé hvernig Rarik ætli að bæta íbúum það tjón sem þeir urðu fyrir 2. október.

„Rarik beinir þessu til Landsnets sem að beinir því svo til síns tryggingarfélags sem er Sjóvá eins og ég skil þetta,“ segir Guðrún og heldur áfram.

„Rarik þvær eiginlega bara hendur sínar af þessu og við lendum þarna bara á milli Rarik og Landsnets í rauninni. Við eigum svo bara að bíða eftir því að fá tryggingarfélag Landsnets til að greiða okkur bætur.“

Ættu að sjá sóma sinn

Nefnir hún að enginn fulltrúi Sjóvá hafi þó verið á fundinum en það hafi svo komið fram í máli fulltrúa Rarik að í einhverjum tilfellum yrðu ekki greiddar fullar bætur.

„Þá er það þannig að það er tekið tillit til aldurs þess tækis sem varð ónýtt og það er í rauninni búið að afskrifa hluta af tækinu þannig þú ert ekkert að fá greiddar fullar bætur. Þú ert bara að fá greitt eitthvert virði sem að tryggingarfélagið ákveður að tækið sé virði þegar það verður ónýtt.“

Nefnir Guðrún dæmi um einstakling sem lenti í því að ísskápur hans eyðilagðist í rafmagnsleysinu og þurfti því einstaklingurinn að kaupa sér nýjan ísskáp. Rarik hefur ekki í hyggju að bæta þeim einstakling tjónið í heild heldur einungis hluta vegna þess að ísskápurinn var einhverra ára gamall, en virkaði þó fullkomlega.

„Ég sagði við fulltrúa Rarik að þeir ættu að sjá sóma sinn í því að bæta okkur þetta tjón að fullu. Þeir geta svo bara sótt þær bætur ef þeir telja að þeir eiga eitthvað að sækja til Landsnets eða tryggingarfélags Landsnets. Mér kemur það ekkert við. Ég er ekki viðskiptavinur Landsnets, ég er viðskiptavinur Rarik og þar að leiðandi á Rarik að bæta mér vöruna.“

Eiga að bæta tjónin þegjandi og hljóðalaust

Er samhljómur í borgurunum hvað þetta varðar?

„Já, það var held ég alveg samhljómur í því að menn eru ekkert tilbúnir að sætta sig við það að fá ekki vöruna bætta. Tækin voru í fullkomnu lagi. Þó að tæki sé orðið einhverra ára gamalt þá er það í fullkomnu lagi.

Ef þú skemmir eitthvað fyrir einhverjum, þá bætirðu honum það. Þú bætir honum ekki bara hluta af því. Þú bætir einstaklingi það tjón sem þú ert valdur að. Þú bætir það þegjandi og hljóðalaust.“

Þá nefnir hún dæmi um mann sem fékk á mánudag í fyrsta skipti heitt neysluvatn frá því þegar rafmagnsleysið varð, sökum tjóns sem varð á varmadælu hans.

Eins varð tjón á dælu hitaveitu Guðrúnar sem leiddi til mikils kulda í húsi hennar eftir rafmagnsleysið.

Munu ekki sætta sig við að fá hluta af tjóni bætt

Þá undirstrikar hún einnig að sumir gætu verið í þannig aðstöðu að hafa ekki fjármagn til að geta keypt ný tæki eftir tjón sín.

„Hvað eiga þeir að gera?“ spyr hún. 

Spurð um næstu skref segir Guðrún að nú þurfi að sjá hvort að RARIK hafi meðtekið það sem kom fram á fundinum.

„Það kom alveg, að ég taldi, skýrt fram að menn ætla ekki að sætta sig við það að fá ekki nema hluta af tjóninu bætt. Menn munu ekki sætta sig við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka