„Út í hött“ að neytendur fái ekki sæti við borðið

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Neytendasamtökin krefjast þess að stjórnvöld setji arðsemisþak á sölu rafmagns til heimila og að raforkuframleiðendur veiti 5% af framleiðslu sinni til neytenda. Þá er þess einnig krafist að ráðherra skipi fulltrúa neytenda og fulltrúa umhverfis- og náttúruverndar í stjórn Úrvinnslusjóðs.

Var þetta ályktað á aðalfundi samtakanna á þriðjudag. Með arðsemisþaki á sölu rafmagns til heimila væri raforka því sett undir sama hatt og kalt og heitt vatn og flutningur á raforku þar sem nú þegar er þak á arðsemi.

„Við erum þegar með arðsemisþak á sölu á köldu vatni til heimila,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is. Hann útskýrir að arðsemisþak sé 2% á köldu vatni, 7% á heitu vatni og 5% á flutningi á raforku.

„Við teljum að arðsemisþak á sölu á raforku til heimila eigi að setja á, hvort sem það er 2% eða 5%. Það má ræða það,“ bætir Breki við.

Framleiðendur veiti heimilum 5% af framleiðslunni

Að sama skapi eigi að skylda stóra raforkuframleiðendur sem selja inn á raforkukerfið til að veita 5% af framleiðslu sinni inn á heimilismarkaðinn. „Heimilin nota ekki nema 5% af þeirri raforku sem er framleidd, þannig að þetta er ekki stór hluti af raforkunni.“

Í ályktun fundarins segir að raforka sé ein forsenda búsetu á Íslandi og sé afar ólík vörum á frjálsum markaði. Heimilin neyðist nú til að keppa við stórfyrirtæki um rafmagn sem meðal annars hafi leitt til 13% verðhækkunar síðustu tólf mánuði.

Þá er því bætt við að ódýrt rafmagn til heimila sé réttmætt gjald fyrir nýtingu sameiginlegra náttúruauðlinda og stuðli að þjóðarsátt um nauðsynlegar virkjanir.

Fulltrúar atvinnulífsins semji við sig sjálfa

Það skýtur skökku við að mati Neytendasamtakanna að fulltrúar atvinnulífsins skipi meirihluta stjórnar í Úrvinnslusjóði og að hvorki fulltrúar neytenda né fulltrúar umhverfis- og náttúruverndar eigi þar sæti, og fái því engu um það ráðið hvernig peningum þar sé varið.

„En þar eru fulltrúar atvinnulífs í meirihluta og semja við sjálfa sig um styrkina sem þeir veita sjálfum sér sem eru kostaðir af neytendum“ segir Breki.  Úrvinnslusjóður er í eigu ríkisins og fjármagnaður af neytendum og Neytendasamtökin benda á að hann gegni mikilvægu hlutverki við innleiðingu hringrásarhagkerfisins.

„Þetta finnst okkur afar slæmt fyrirkomulag og alveg út í hött. Ef það á í raun að koma á hringrásarhagkerfi þá verða neytendur og umhverfissamtök að koma þarna að og sitja í stjórn.“

Neytendasamtökunum er þó boðið að sitja í hagsmunaráði sjóðsins en Breki bendir á að það hafi ekkert að segja um það hvernig sjóðurinn sé rekinn, eða uppfylli skyldur sínar.

Krefjast fundiar með starfshóp

Aðalfundur Neytendasamtakanna gerir einnig alvarlegar athugasemdir við það að starfshópur um endurskoðun laga um Úrvinnslusjóð, sem á að skila tillögum til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eigi síðar en 15. nóvember, hafi enn ekki fundað með Neytendasamtökunum, sem séu þó fulltrúi eins stærsta hagaðilans, neytenda og heimila.

Aðalfundurinn krefst þess að starfshópurinn fundi með Neytendasamtökunum og taki tillit til athugasemda þeirra við vinnslu tillagna til ráðherra.

Þá gerir aðalfundur athugasemd við að skipaður formaður starfshópsins sé jafnframt stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka