Faðir piltsins sem lést í eldsvoða á meðferðarheimilinu Stuðlum í síðustu viku vissi ekki að sonur sinn væri á Stuðlum en enginn hafði látið hann vita af því.
Þetta kemur fram í viðtali við Jón K. Jacobsen í Heimildinni en sonur hans, Geir Örn Jacobsen, sem hefði orðið 18 ára gamall í næsta mánuði, hafði komið inn á Stuðla innan við klukkustund áður en eldurinn braust út á meðferðarheimilinu.
Hann segist hafa fengið símtal frá barnavernd snemma morguns og þar var honum tjáð að alvarlegt atvik hafi orðið þar.
„Ég spyr; af hverju ertu að hringja í mig? Geiri er ekki þar. Ég er pabbi hans og vissi ekki að hann væri á Stuðlum,“ segir Jón meðal annars í viðtalinu.
Eftir að lögreglan hafði ekið Jóni á Landspítalann segist hann fyrst hafa fengið upplýsingarnar um að það hafi verið sonur hans sem lenti í brunanum. Geir var úrskurðaður látinn stuttu eftir að faðir hans og uppeldismóðir voru komin á spítalann.
Jón segir í viðtalinu að nóttina áður hafi Geir komið heim til hans.
„Hann var í slæmu ástandi og ég minnti hann á það sem við höfum oft rætt að hann gæti ekki verið hjá mér þegar hann væri í slíku ástandi. Hann sagði mér þessa nótt að hann ætlaði að fara á Stuðla en ég sagði honum að það væri nú ekki svo einfalt, hann labbaði ekkert þar inn. En hann komst þangað inn án minnar vitundar. Ég veit ekki hvernig það kom til. En hann kom aðeins við heima nóttina fyrir eldsvoðann.“
Jón segir að fáir þekki kerfið sem eigi að vernda börn og ungmenni sem glími við fíknivanda jafnvel og hann. Sjálfur hafi hann verið með alvarlegan fíknivanda en hann hefur verið edrú í yfir 20 ár.
„Ég leiddist út á glæpabrautina um skeið fyrir mörgum árum og endaði í háskólanum á Eyrarbakka. Ég var þar í þrjú ár. Ég er að tala um Litla-Hraun. Þar lærði ég meira en ég hef gert nokkurs staðar í þessu lífi,“ segir Jón enn fremur í viðtali við Heimildina.