„Maður er oft að gera mikið og hugsa mikið í einu. Sérstaklega þessa dagana og þetta er nú bara mannlegt,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um skjáskot sem er í dreifingu á netinu sem sýnir að ráðherrann gleymdi tölvunni sinni á vínbarnum Port 9.
Á skjáskotinu kemur meðal annars fram að Áslaug hafi greinilega verið búin að nýta sér happy hour-tilboð á vínbarnum.
„Þetta var ekki eins og þarna er lýst en ég er orðin vön því að sjá eitthvað svona á internetinu og kippti mér því ekkert sérstaklega upp við þetta,“ segir ráðherrann sem kveðst ekki hafa haft miklar áhyggjur af atvikinu.
Þá er hún orðin nokkuð vön því að sjá fólk gera stórmál úr litlum málum eins og þessu.
Segist hún hafa farið á Port 9 rétt yfir kvöldmatarleytið til að hitta vinahóp en þurfti að vinna á sama tíma. Hún hafi því verið í tölvunni á staðnum, lagt hana svo frá sér og gleymt henni. Hún hafi svo hringt daginn eftir á staðinn og sótt tölvuna.
„[...] og á þeim stutta tíma hafði tölvan verið opnuð, en það kemst auðvitað enginn inn í hana, og tekin mynd af henni og birt á netið.“
Segir Áslaug að henni hafi fundist það sérkennilegt að starfsmaður staðarins hafi tekið mynd og birt hana á þeim stutta tíma sem tölvan varð eftir.
Talaðirðu eitthvað við starfsmanninn varðandi myndatökuna?
„Ég greindi henni frá því að mér þætti það sérkennilegt að starfsmaður hefði birt svona mynd á netinu en svo bara hefur fólk sínar skoðanir á því.
Það er annað sem ég hef um að hugsa þessa dagana en að þessi mynd hafi farið á netið og fólk reynir að búa til sögusagnir í kringum það af hverju ég hafi gleymt þessari tölvu annað en það að ég hafi haft mikið um að hugsa og mikið á minni könnu,“ segir Áslaug Arna að lokum og vísar þar að öllum líkindum til komandi kosninga.