Jón Gnarr, frambjóðandi Viðreisnar, segist ekki hafa mælt sér mót við Volodimír Selenskí Úkraínuforseta, sem er kominn hingað til lands í fyrsta sinn til að taka þátt í leiðtogafundi Norðurlandaráðs.
Jón, sem er grínisti og fyrrverandi borgarstjóri, hittust í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, árið 2019 þegar honum var boðið þangað.
„Hann er í allt öðrum veruleika heldur en flest annað fólk. Ég hef verið í einhverjum óbeinum samskiptum við fólk í kringum hann en ekki neitt við hann,“ segir Jón, spurður hvort þeir ætli að nýta tækifærið og hittast aftur.
Jón nefnir að Selenskí, sem er sjálfur fyrrverandi grínisti og leikari, hafi upprunalega farið út í stjórnmálin eftir að hafa séð heimildarmynd Gauks Úlfarssonar um framboð Besta flokksins. Jón kveðst hafa hitt Selenskí í kvöldverðarboði í Úkraínu og spjallað aðeins við hann. Þeir hafi ætlað að funda betur daginn eftir en ekkert hafi orðið af því.
Værirðu til að hitta hann aftur?
„Jú, jú, það væri vissulega gaman, ég myndi ekki afþakka það,“ svarar Jón og nefnir í framhaldinu að hann hafi hitt borgarstjórann í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu, á bókmenntahátíð í fyrrasumar. Hann hefði ákveðið að fara í framboð eftir að hafa séð sömu heimildarmynd um Besta flokkinn.
„En þetta með Selenskí er miklu, miklu alvarlegra en það,“ segir hann og á við veruleika hans og starf eftir að Rússland réðst inn í Úkraínu árið 2022 og blóðugt stríðið sem enn stendur yfir þar í landi.
Hann heldur áfram um Vladimír Pútín Rússlandsforseta:
„Pútín er bara Freddy Krueger. Þetta er maður sem eitrar fyrir fólki með geislavirkum úrgangi. Hann er svona pólitískur Freddy Krueger.”
Spurður hvort Selenskí sé ekki viðkunnanlegur maður svarar Jón því játandi. „Hann er náttúrulega gríðarlega lágvaxinn og vandaður og hæverskur maður. En mér sýnist á þessum vídeóum sem ég hef verið að sjá á Telegram þar sem hann er í neðanjarðarbyrgi að tala að þetta er ekki sami maður og ég hitti þarna,“ segir Jón og bætir við:
„Þetta eru ekkert bara einhverjar friðardúfur og sprellikarlar sem eru með honum þarna. Ég skynjaði það alveg. Þetta var þungavigtarlið og ekki úr gríni og leiklist, það var úr einhverju öðru.”
Hann segir Selenskí hafa staðið sig gríðarlega vel sem forseti Úkraínu, hann sé orðinn þjóðhetja og táknmynd fyrir frelsi og sjálfstæði, gegn miskunnarleysi, grimmd og alræði.
„Ég myndi segja að hann sé nútímaleg byltingarhetja. Ég myndi frekar fara í Selenskí-bol heldur en Che Guevara-bol,“ segir Jón og hlær dátt.
Spurður aftur út í mögulegan fund með Selenskí í Reykjavík kveðst Jón myndu mæta ef honum yrði boðið. Það hafi þó ekki enn gerst.
„Ég stórefast um að hann hafi eitthvað sérstakt við mig að segja. En það kynni að breytast eftir kosningarnar, kannski fæ ég tækifæri til að hitta hann við eitthvað annað tækifæri.“