Andlát: Sigtryggur Rósmar

Sigtryggur Rósmar Eyþórsson var öflugur frímerkjasafnari og starfaði lengi að …
Sigtryggur Rósmar Eyþórsson var öflugur frímerkjasafnari og starfaði lengi að félags- og útgáfumálum þeirra. Mlb.is/Golli

Sigtryggur Rósmar Eyþórsson framkvæmdastjóri lést sunnudaginn 27. október síðastliðinn, 83 ára að aldri.

Sigtryggur Rósmar fæddist í Reykjavík 8. júlí 1941, ólst þar upp og bjó alla ævi. Foreldrar hans voru Eyþór Magnús Bæringsson (1916-1972), kaupmaður og Fjóla Jósefsdóttir (1920-2013), húsmóðir. Systur hans eru Þórey, sálfræðingur og listakona, og Hildur Guðrún bókasafnsfræðingur.

Frímerkjasafnari frá unga aldri

Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1958 og hóf sama ár störf hjá Póststofunni í Reykjavík. Þegar vinnudegi lauk rak hann Frímerkjastofuna á Vesturgötu 14 eða frá árinu 1960 til 1966. Hann starfaði í Kaupmannahöfn hjá Jakobi Kvaran, frímerkjakaupmanni frá byrjun árs 1962 og síðar það ár við verslunarstörf hjá Renault bifreiðaumboðinu. Árið 1963 hóf hann störf hjá heildversluninni Eddu hf. í Reykjavík og starfaði þar sem sölustjóri í ellefu ár. Árið 1974 hóf hann rekstur inn- og útflutningsfyrirtækisins XCO hf og var framkvæmdastjóri þess frá upphafi og þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Hann var ræðismaður Slóveníu frá árinu 2001 til 2019.

Sigtryggur Rósmar sat í nefnd Útflutningsráðs Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS), og var formaður þess um skeið. Hann sat einnig í stjórn hóps æðadúnsútflytjenda hjá FÍS. Hann átti sæti í stjórn nokkurra fyrirtækja í gegnum árin. Hann var sæmdur gullmerki FÍS árið 2001. Árið var 2015 var hann útnefndur fyrsti heiðursfélagi Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins á 20 ára afmælismálþingi ráðsins. Hann var einn aðalhvatamanna að stofnun ráðsins og fyrsti formaður þess en hann átti lengi í viðskiptum við Kína.

Sigtryggur Rósmar starfaði lengi að félagsmálum fyrir frímerkjasafnara og sat um tíma í stjórn Landssambands íslenskra frímerkjasafnara. Hann gaf út Safnarablaðið og var jafnframt ritstjóri þess. Hann var framkvæmdastjóri fyrstu Norrænu frímerkjasýningarinnar sem haldin var á Íslandi, Nordia 1984, sem jafnframt var stærsta frímerkjasýning sem þá hafði verið haldin hérlendis. Sigtryggur Rósmar safnaði m.a. íslenskum bréfspjöldum sem gefin voru út á árunum 1879 til 1920. Safnið hefur fengið viðurkenningu á norrænum- og alþjóðasýningum frímerkjasafnara gegnum árin.

Trúnaðarstörf fyrir blinda og sjónskerta

Sigtryggur Rósmar sinnti trúnaðarstörfum fyrir Félag blindra og sjónskertra á Íslandi, en hann var alla tíð mjög sjónskertur og lögblindur meiri hluta ævinnar. Hann sat um tíma í stjórn félagsins. Hann sat einnig í stjórn Blindrabókasafnsins og Blindravinnustofunnar og var formaður um skeið. Sigtryggur Rósmar var stofnfélagi Kiwanisklúbbsins Vífils í Breiðholti, gekk í Rotaryhreyfinguna árið 2002, og sat um tíma í stjórn Rotary Breiðholt og var félagi í Karli I. Hann var Glitnisbróðir í Frímúrarareglunni í Reykjavík.

Eftirlifandi eiginkona Sigtryggs Rósmars er Þorbjörg Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru dr. Fjóla Guðrún, prófessor í verkfræði við háskólann NTNU í Noregi, Magnús Rósmar, flugstjóri hjá Icelandair, og Guðmundur Rósmar, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri. Barnabörnin eru sjö talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka