Sala á neyðarkallinum hófst í dag og venju samkvæmt tóku forsetahjónin við fyrsta neyðarkallinum ársins 2024, en í ár er hann hamfarasérfræðingur.
Halla Tómasdóttir forseti tók við fyrsta neyðarkallinum á Bessastöðum í dag.
Neyðarkall björgunarsveita hvert ár er eitt af stóru fjáröflunarátökum þeirra, og skiptir gríðarlega miklu máli í rekstri þeirra, að því er fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
„Hlutverk neyðarkalls ársins þarf ekki að koma neinum á óvart, en hamfarir af ýmsum toga hafa reynt mikið á seiglu björgunarsveita um allt land undanfarin misseri og ár,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Þeir sem vilja ólmir leggja björgunarsveitunum lið með því að kaupa neyðarkall munu geta gert það til 3. nóvember.