Lögin innblásin af íslenskum ljóðum

Á Logni eru 11 lög við ljóð fjögurra íslenskra skálda. …
Á Logni eru 11 lög við ljóð fjögurra íslenskra skálda. Flytjendur eru frá vinstri: Ólöf Sigursveinsdóttir, Hrönn Þráinsdóttir, Ingibjörg Azima, Margrét Hrafnsdóttir, Ármann Helgason og Björg Brjánsdóttir. Ljósmynd/Tommaso Tuzj

Fyrir helgi sendi Ingibjörg Azima, básúnuleikari, málmblásturskennari og tónskáld, frá sér geisladiskinn Logn með 11 lögum við ljóð fjögurra íslenskra skálda. Lögin samdi Ingibjörg á árunum 2009 til 2022.

„Smám saman sá ég að ég var komin með efni á disk en yngsta lagið er það eina sem er samið sérstaklega fyrir plötuna,“ segir hún. Í bæklingi, sem fylgir disknum, kemur fram að lögin séu algjörlega innblásin af ljóðunum.

Ingibjörg lauk burtfararprófi frá Tónskóla Sigursveins 1994 og var síðan í framhaldsnámi í Svíþjóð, þar sem hún starfaði í mörg ár. „Þar byrjaði ég að semja tónlist,“ rifjar hún upp. Ólöf Sigursveinsdóttir vinkona hennar pantaði ljóðaflokk og úr varð geisladiskurinn Vorljóð á ýli með níu lögum við ljóð Jakobínu Sigurðardóttur ömmu hennar, sem kom út 2015. Þremur árum síðar gaf hún út sönglagabókina Varpaljóð á Hörpu með tíu frumsömdum lögum við ljóð Jakobínu.

Andstæður

Ingibjörg segir að á nýliðnum árum hafi hún samið mörg lög og verið komin með nokkra lagaflokka, en fjórir slíkir eru á Logni. „Ég útsetti lögin, sem eru á plötunni, upp á nýtt fyrir söng og píanó og eitt aukahljóðfæri. Þannig varð til nokkurs konar þráður og mig langaði til að koma þeim þræði út til hlustenda.“

Ljóðin eru eftir Snorra Hjartarson, Gerði Kristnýju, Sölva Björn Sigurðsson og Kristínu Jónsdóttur en nafn disksins er samnefnt einu ljóða Gerðar. „Ég er orðanörd og logn er afskaplega fallegt orð. Mér finnst það líka ná stemningunni á diskinum,“ segir Ingibjörg. 

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í gær, 29. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert