Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókn á banaslysi sem varð í desember í fyrra þar sem Toyota-bifreið var ekið yfir á rangan vegarhelming og framan á aðra bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður Toyota-bifreiðarinnar lést í slysinu.
Fram kemur í skýrslunni að ökumaðurinn, sem var 66 ára gömul kona, hafi verið með skerta athygli við aksturinn og mögulega án meðvitundar eða sofandi skömmu fyrir slysið.
Slysið varð þann 13. desember 2023. Þá var Toyota Yaris-bifreið ekið suðaustur Vesturlandsveg í átt að gatnamótum við Skipanesveg. Á sama tíma var Volvo S40 fólksbifreið ekið úr gagnstæðri átt norðvestur Vesturlandsveg.
Toyota-bifreiðinni var ekið yfir á vinstri akrein og framan á Volvo-bifreiðina í hörðum árekstri á móts við gatnamótin. Ökumaður Toyota bifreiðarinnar lést í slysinu sem fyrr segir, en ökumaður og farþegi í framsæti Volvo-bifreiðarinnar slösuðust alvarlega.
Í greiningarkafla skýrslunnar kemur fram að tæpum tveim sekúndum fyrir slysið sýndi ökumaður Toyota-bifreiðarinnar viðbrögð gagnvart stjórntækjum bifreiðarinnar. Á slysstað sáust engin ummerki um hemlun Toyota-bifreiðarinnar.
Fram kemur í skýrslunni, að við áreksturinn hafi Toyota-bifreiðin snúist um 180 gráður og stöðvast á nyrðri akreininni. Volvo-fólksbifreiðin kastaðist til hliðar og út fyrir veg við ætlaðan árekstrarstað. Slysið var tilkynnt kl. 14:35 og viðbragðsaðilar fóru á vettvang. Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar
Fram kemur í skýrslunni að báðir ökumenn og farþeginn hafi verið spenntir í öryggisbelti.
Þá segir að ekkert í niðurstöðum bíltæknirannsókna á bílunum hafi bent til þess að rekja mætti orsakir slyssins til ástands bifreiðanna. Þá segir að hraði Toyota-bifreiðarinnar hafi verið um 80 km/klst. við áreksturinn. Ekki liggur fyrir með hraða hinnar bifreiðarinnar.
Í skýrslunni segir jafnframt, að niðurstaða áfengisrannsóknar á ökumönnum bifreiðanna hafi verið neikvæð. Lyf fundust í blóði ökumanns Toyota-bifreiðarinnar sem voru eftir ávísun læknis og í lækningalegum skömmtum. Tekið er fram að akstur bifreiðar sé leyfilegur við notkun lyfsins.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að ökumaður Toyota-bifreiðarinnar hafi sennilega ekki orðið var við að hann ók yfir á öfugan vegarhelming þar til tveimur sekúndum fyrir slysið en þá hafi hann fyrst sýnt viðbrögð gagnvart stjórntækjum bifreiðarinnar.
„Mögulega var hann ekki með hugann við aksturinn, án meðvitundar eða sofnaði í nokkrar sekúndur,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni er jafnframt bent á að á miðju vegarins hafi ekki verið rifflur.
„Yfirborð vegarins var malbikað og því mögulegt að fræsa rifflur í yfirborðið. Vegagerðin hefur unnið að gerð riffla, þar sem slíkt er mögulegt, og hefur við ritun skýrslunnar meðal annars lokið við að fræsa rifflur á milli akreina á þessum vegarkafla,“ segir í skýrslunni.
Í lok skýrslunnar koma fram ábendingar. Þar segir að ökumaður sem finni fyrir áhrifum þreytu eða syfju eigi að taka sér hvíld eða hætta akstri.
„Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni. Því er brýnt að ökumenn forðist að aka þreyttir. Margar rannsóknir hafa sýnt að þreyta skerðir aksturshæfni sem og að hætta er á að þreyttur ökumaður dotti eða jafnvel sofni undir stýri. Eins ættu allir að vera á verði og gera athugasemdir við ferðaáætlanir annarra ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns.“