Sat um og hrelldi þrjár konur

Maðurinn mætti ekki fyrir dóm í Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Maðurinn mætti ekki fyrir dóm í Héraðsdómi Norðurlands eystra. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ítrekað brotið gegn friðhelgi þriggja kvenna, en ein þeirra var undir lögaldri þegar brotin áttu sér stað. Reyndi hann endurtekið að setja sig í samband við konurnar á tímabilinu nóvember 2022 til maí 2024 og var það í óþökk þeirra. Braut hann meðal annars ítrekað gegn nálgunarbanni sem lögregla hafði sett á hann og sendi pósta á yfirmann einnar konunnar með aðdróttunum.

Hrelldi stúlku sem vann á gistiheimili

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra að umsáturseinelti mannsins hafi hafist sumarið 2022 gagnvart fyrstu konunni, en þau unnu þá saman. Reyndi maðurinn ítrekað að setja sig í samband við hana í síma eða á öðrum fjarskiptamiðlum og þannig valdið hræðslu og kvíða hjá konunni.

Þetta sama sumar kynntist hann 17 ára stúlku sem vann á gistiheimili, en maðurinn var þar viðskiptavinur. Er hann er fundinn sekur um umsáturseinelti gagnvart henni frá nóvember 2022 til febrúar 2023. Gerði hann það einnig með að reyna stöðugt að setja sig í samband við hana í gegnum síma og aðra fjarskiptamiðla.

Hvatti yfirmann til að segja konunni upp 

Að lokum var maðurinn fundinn sekur um umsáturseinelti gagnvart konu yfir tæplega árs tímabil, frá júlí 2023 til maí 2024. Sat hann meðal annar um konuna að heimili hennar, kíkti á glugga á heimilinu, skildi eftir gjafir í óþökk hennar og reyndi stöðugt að setja sig í samband við hana.

Að lokum sendi maðurinn yfirmanni konunnar þrjá tölvupósta í maí 2024 með aðdróttunum og hvatningu um að víkja henni úr störfum.

Nálgunarbönn höfðu lítil áhrif á hegðun hans

Hélt hann hegðuninni áfram þrátt fyrir að hafa tvívegis verið settur í nálgunarbann af lögreglu vegna áreitisins. Er í dóminum farið yfir hvernig hann hafi, þrátt fyrir nálgunarbannið, reynt að nálgast konuna fyrir utan heimili hennar, senda henni skilaboð í gegnum samskiptaforrit, veitt henni eftirför m.a. við verslun, nálgast hana nokkrum sinnum þar sem hún var í messu í kirkju og reynt að setjast inn í bifreið hennar.

Maðurinn sótti ekki þing þrátt fyrir að hafa fengið boðun þar að lútandi. Var því dæmt í málinu að honum fjarstöddum og hann fundinn sekur um háttsemina sem hann var ákærður fyrir.

Er hann jafnframt dæmdur til að greiða seinustu konunni 600 þúsund krónur í miskabætur vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka