Matvöruverslunin Prís hefur sent inn erindi til Seltjarnarnesbæjar í tengslum við uppbyggingaráform á lóð Orkunnar við Austurströnd. Vilja stjórnendur Príss að við deiliskipulagsvinnu verði horft til þess að á jarðhæð verði stórt verslunarrými þar sem Prís hefur hug á að opna verslun, en endurskipulagning svæðisins er nú til skoðunar hjá sveitarfélaginu.
Í dag er Orkan með bensínstöð á reitnum og þvottaplan, en auk þess er Huppa með ísbúð í gamla Shell-húsinu. Súkkulaðigerðin Omnom hafði verið þar með framleiðslu áður en hún var flutt út á Granda.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Príss, segir í samtali við mbl.is að erindið hafi nýlega verið sent inn en að eftir sé að taka það fyrir hjá bænum.
„Við í Prís höfum áhuga á að fara á Nesið,“ segir hún um þessi áform. Leitað hafi verið að staðsetningum til að geta opnað nýjar verslanir, en fyrsta verslun Príss var opnuð við Smáratorg í ágúst á þessu ári.
Gréta segir að nú sé verið að skipuleggja Orkulóðina undir íbúðabyggð og mögulega verslunarstarfsemi. Hún segir Prís vilja koma snemma inn í ferlið og láta vita af áhuga sínum, því ef það sé ekki gert frá upphafi séu líkur á að verslunarrými verði ekki hentugt fyrir lágvöruverðsverslun sem þurfi umtalsvert pláss.
„Það er kominn tími á að Nesið fái aftur lágvöruverðsverslun,“ segir Gréta og vísar til þess að Bónus hafi áður verið með verslun á Seltjarnarnesi, en að henni hafi verið lokað fyrir um tveimur áratugum. Fyrir er þó verslun Hagkaupa á Eiðistorgi.
Orkan, sem er með leigusamning vegna Orkureitsins til 2029 samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins fyrr á árinu, er móðurfélag Príss, en móðurfélag Orkunnar er svo fjárfestingafélagið Skel, sem skráð er í Kauphöllina.
Í fyrrnefndri umfjöllun var haft eftir Þór Sigurgeirssyni, bæjarstjóra á Seltjarnesi, að leigusamningurinn yrði endurskoðaður þegar hann myndi renna út. Árið 2015 var haldin hugmyndasamkeppni um miðbæjar á Seltjarnarnesi. Sigurtillagan gerði ráð fyrir að byggt yrði við Eiðistorg en einnig að atvinnuhúsnæði við Norðurströnd (meðal annars á Orkureitnum) yrði rifið og íbúðabyggð kæmi í staðinn.
Íbúar tóku þá ekki vel í hugmyndirnar sem hurfu, en Þór sagði að dusta eigi rykið af tillögunum. Hafði bærinn þá nýlega samþykkt að stofna vinnuhóp um þróun á Eiðistorgi og á Orkureitnum.
Þór sagði viku eftir umfjöllun Morgunblaðsins við Mannlíf að bærinn hyggðist taka lóðina til sín þegar lóðaleigusamningurinn rynni út.
Prís opnaði sína fyrstu verslun í sumar og Gréta segir að viðtökurnar síðan hafi verið góðar. Segir hún að í efnahagsástandi eins og sé núna skipti samkeppni miklu máli fyrir neytendur. Hún segir Prís síðan þá hafa haft augun opin fyrir opnun fleiri verslana, en að það séu ekki mörg svæðið þar sem ekki séu þegar matvöruverslanir. Því sé talsverður aðgangsþröskuldur inn á markaðinn að finna góða staðsetningu, en þar þurfti meðal annars að horfa til þess að stórt húsnæði sé til staðar, að íbúafjöldi í nágreninu sé umtalsverður og að bílastæði séu við verslunina.
Gréta María hefur áður tjáð sig um að þegar komi að því að opna matvöruverslanir séu fleiri aðgangshindranir í veginum. Þannig séu heildsalar og framleiðendur hér á landi sem bjóð stærstu matvörukeðjunum landsins það mikinn afslátt að ódýrara sé fyrir nýjar verslanir að versla við Bónus eða Krónuna en að kaupa beint af þeim.
Nú þegar reynsla er komin á reksturinn segir Gréta að stakir heildsalar og framleiðendur hafi komið til Príss og rætt stöðuna og viljað taka slaginn með þeim. Þá segir hún jafnframt að verslunin horfi til þess að finna sambærilegar vörur og landsmenn þekki úr stóru verslunarkeðjunum sem séu þá mögulega undir öðru merki, en að gæði vörunnar séu hin sömu.
Aðspurð segir hún að þessi staða hafi komið sér á óvart þó hún hafi heyrt af þessu í mörg ár. „En maður trúði því ekki að kerfið virkaði svona [...] Það kemur að sjálfu sér á óvart þó að mann hafi grunað það,“ segir Gréta og bætir að lokum við: „Það er eitthvað rangt gefið í þessu.“