Ætliði að gefa út bók eftir þessa Moggastelpu?

Kristín Marja Baldursdóttir rithöfundur.
Kristín Marja Baldursdóttir rithöfundur. Mbl.is/Eyþór Árnason

Þegar Kristín Marja Baldursdóttir fór að leita hófanna um útgefanda vegna sinnar fyrstu skáldsögu, Mávahláturs, fyrir um þremur áratugum stóð það í sumum að hún starfaði á Morgunblaðinu.

Hún sneri sér til Máls og menningar og ekki voru víst allir sannfærðir. „Ég heyrði það að vísu ekki fyrr en síðar en á fundi, þar sem bókin mín var til umræðu, þá á einhver að hafa sagt: „Ætliði að fara að gefa út bók eftir þessa Moggastelpu?““ segir Kristín Marja í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

Mávahlátur kom þó út og mæltist afar vel fyrir, hjá leikum sem lærðum, og síðan hefur Kristín Marja starfað sem rithöfundur. 

Hún vann á Morgunblaðinu frá 1988 til 1995 og kveðst alltaf kunna betur og betur að meta þessi ár. „Ég lærði gríðarlega margt á Mogganum, eins og til dæmis hvernig ætti að skrifa um fólk, sýna aðgát og virðingu. Einu sinni kallaði Matthías [Johannessen ritstjóri] á okkur blaðamennina til að tala við okkur um myndir af fólki. Hann ráðlagði okkur að birta alltaf góðar myndir af fólki, engin ástæða væri til að birta ljótar myndir. Maður fann að maður var á alvöru blaði sem bar virðingu fyrir fólki og því sem fjallað var um. Íslenskan þurfti líka að vera góð sem ég var mjög ánægð með.“

Fólk úr öllum áttum

Hún var líka ánægð með samsetningu fólksins á ritstjórninni. „Þetta var fólk úr öllum áttum með mismunandi menntun að baki. Það þótti mér vænst um. Blaðið sjálft var hægrisinnað en samt liðust allskonar sjónarmið á ritstjórninni, sjálf er ég til dæmis alin upp af krötum í Hafnarfirði. Ég fann aldrei að það ynni gegn mér á Mogganum, eiginlega bara þvert á móti. Maður skynjaði að ritstjórarnir vildu að ólíkar raddir heyrðust. Það var líka áberandi hvað karlarnir þarna voru kurteisir.“

Ítarlega er rætt við Kristínu Marju í Sunnudagsblaðinu en nýjasta skáldsaga hennar, Ég færi þér fjöll, er komin út hjá Bjarti. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert