Segir að útspil ríksins hafi hleypt illu blóði í félagsmenn

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Colourbox

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir að tíðindin sem félagsmönnum hafi borist á aðalfundi Læknafélagsins í gær um að íslenska ríkið telji boðun félagsins á verkfalli ólögmæta hafi hleypt illu blóði í félagsmenn sína.

Ef til verkfallsaðgerða lækna, sem eiga að hefjast 18. nóvember, fara þær fram í lotum aðra hverja viku fram að jólum og beinast að einstökum sjúkrahúsum, deildum Landspítalans og heilbrigðisstofnunum og standa yfir í einn sólarhring á hverjum stað.

Þegar blaðamaður náði tali af Steinunni í dag var hún stödd á fundi með félagsfólki sínu en nýr fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara klukkan 9 á mánudagsmorgun.

„Við vorum svona að stilla saman strengi okkar og meta okkar viðbrögð við þessu útspili ríkisins í gær. Við fengum þessar fréttir á miðjum aðalfundi og maður fékk svolítið að sjá viðbrögð hópsins í beinni,“ segir Steinunn við mbl.is.

Hún segir að viðbrögðin hafi vægast sagt ekki verið góð og segir að sé synd að ríkið hafi tekið þessa ákvörðun.

„Mér hefur fundist samtalið hafa verið á uppbyggilegum nótum hingað til en þetta útspil ríkisins breytir tóninum. Við verðum svolítið að skoða hvernig við höldum áfram með okkar aðgerðarplön,“ segir Steinunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert