Óskar Bergsson
Fyrirhuguð íbúðabyggð í Skerjafirði í Reykjavík er á landi sem ríkið seldi Reykjavíkurborg 1. mars árið 2013 samkvæmt sérstöku samkomulagi sem gert var á grundvelli þess að norðaustur-suðvestur flugbrautin yrði lögð niður og greiðslan yrði innt af hendi þegar það skilyrði væri uppfyllt. Land ríkisins sem borgin keypti var rúmlega 11 hektarar en borgin átti fyrir 6,5 hektara af aðliggjandi landi.
Isavia ohf. undirbýr nú umsókn til Samgöngustofu um færslu girðingar við Reykjavíkurflugvöll vegna fyrirhugaðrar íbúðabyggðar í Skerjafirði. Þessi vinna var sett af stað vegna tilmæla Svandísar Svavarsdóttur þáverandi innviðaráðherra.
Kaupverðið á landinu var 440 milljónir króna og það var greitt við útgáfu afsals 11. ágúst 2016. Áætlað tekjur af sölu byggingarréttar eru 1.250 milljónir sem skiptast þannig að ríkið fær 1 milljarð og borgin 250 milljónir. Ef tekjurnar verða meiri skiptast þær þannig að ríkið fær 30% af þeim og Reykjavíkurborg 70%.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.