Sjúkratryggingar leita álits dómsstóla

Sjúkratryggingar Íslands telja niðurstöðu kærunefndar að sekta beri stofnunina vera …
Sjúkratryggingar Íslands telja niðurstöðu kærunefndar að sekta beri stofnunina vera órökrétta.

Sjúkratryggingar Íslands árétta að útboð sé þegar hafið á myndgreiningarþjónustu í tilefni af niðurstöðu kærunefndar útboðsmála í máli Intuens Segulómunar gegn Sjúkratryggingum.

Þetta kemur fram í tilkynningu Sjúkratrygginga.

Var Sjúkratryggingum gert að greiða 41 milljón króna í stjórnvaldssekt fyrir að hafa í tvo áratugi haft í gildi samninga um myndgreiningar við einkarekin fyrirtæki án útboðs og á sama tíma neitað að gera sambærilegan samning við Intuens Segulómun.

Segir í tilkynningunni að Sjúkratryggingar telji augljóst að nauðsynlegt verði að fá fram álit dómstóla á þeim mikilvægu álitaefnum sem úrskurðurinn felur í sér og munu þegar hefja undirbúning þess.

Ekki hafnað samningum um alhliða myndgreiningarþjónustu

Þá taka Sjúkratryggingar fram að myndgreiningarþjónusta hafi síðast verið boðin út árið 2017. Því verði ekki talið að liðinn sé langur tími frá síðasta útboði ef horft er til þess að um er að ræða þjónustu sem kallar á umfangsmikla fjárfestingu.

„Þá er mikilvægt að taka fram í þessu samhengi að Sjúkratryggingar hafa ekki hafnað samningum við neinn þann aðila sem boðið hefur upp á þá alhliða myndgreiningarþjónustu sem notendur þurfa á að halda,“ segir í tilkynningunni.

Undirbúningur núverandi útboðs hafi staðið yfir í langan tíma og hafi m.a. verið unnið að stefnumótun um myndgreiningarþjónustu á vegum heilbrigðisráðuneytisins og að kostnaðargreiningu þjónustunnar. Stefnt er á að því að yfirstandandi útboðsferli ljúki á næstu vikum og að nýir samningar taki gildi 1. janúar 2025.

Val á innkaupaaðferð heimilt með lögum

Niðurstaða kærunefndar snúi ekki að nýja útboðinu heldur einungis að fyrra fyrirkomulagi. Í málinu sé í grundvallaratriðum tekist á um það hvort að tiltekin heilbrigðisþjónusta sem Sjúkratryggingar semja um sé útboðsskyld eða ekki.

Sjúkratryggingar telji að almenn útboð geti verið áhrifarík aðferð til að semja um tiltekna heilbrigðisþjónustu en á hinn bóginn sé ákaflega brýnt að Sjúkratryggingar hafi val um það hvenær sú aðferð er nýtt og hvenær önnur valferli séu notuð. 

Lög um sjúkratryggingar veiti skýrt val um innkaupaaðferð, þ.e. hvort bjóða eigi út þjónustu eða gera samninga um hana á öðrum grundvelli.

Niðurstaða kærunefndar gangi gegn þessum skýru ákvæðum laga um sjúkratryggingar.

Hafi áhrif á heilbrigðiskerfið í heild

Sé niðurstaða nefndarinnar lagalega rétt og hafi sambærileg áhrif á aðra þætti heilbrigðisþjónustu sem Sjúkratryggingar semja um, sé ljóst að hún mun hafa mikil áhrif á samninga um heilbrigðisþjónustu og þar með á heilbrigðiskerfið í heild.

Að mati Sjúkratrygginga þyrftu málsástæður og röksemdafærsla fyrir því að kollvarpa þeim lagalega grundvelli sem stofnunin hefur starfað á að vera mun skýrari.

Það sé því brýnt að fá skýra niðurstöðu í málinu og ekki síður að fá skýrari vísbendingar um gildi hennar gagnvart heilbrigðisþjónustu almennt.

„Sjúkratryggingar telja þá niðurstöðu kærunefndar að sekta beri stofnunina vera órökrétta í ljósi þess að stofnunin hefur þegar hafið útboðsferli á myndgreiningarþjónustu.

Tilgangur stjórnvaldssekta samkvæmt lögum um opinber innkaup er að stuðla að því að aðilar hagi innkaupum sínum með réttum hætti sem allra fyrst. Sjúkratryggingar hafa þegar hafið útboðsferlið og því engin nauðsyn til þess að ákvarða sekt til að stuðla að þeirri ákvörðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka