Fer fram á sex og hálfs ára fangelsi yfir Jóni Inga

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari í dómsal í morgun.
Karl Ingi Vilbergsson saksóknari í dómsal í morgun. mbl.is/Karítas

Ákæruvaldið fer fram á að Jón Ingi Sveinsson, höfuðpaurinn í Sólheimajökulsmálinu, verði dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi. Yfir öðrum sakborningum í málinu er farið fram á sjö mánaða til fimm ára fangelsisdóm.

Í dag er fimmti dagur aðalmeðferðar í Sólheimajökulsmálinu. 15 manns eru grunaðir um inn­flutn­ing, vörslu, sölu og dreif­ingu fíkni­efna. Til viðbótar hafa þrír þegar játað sök, en mál þeirra var slitið frá stóra málinu. Þá hafa nokkrir sakborninganna játað hluta ákærunnar svo sem vörslu fíkniefna og vopnalagabrot.

Málflutningur Karls Inga Vilbergssonar saksóknara stóð yfir í rúmar tvær klukkustundir. Hann fór ítarlega yfir hvern ákærulið, þátt hvers sakbornings og helstu sönnunargögn.

Sönnun ákæruvaldsins er að miklu leyti reist á símagögnum, samskiptum sakborninganna, hlerunum og eftirliti lögreglu. Málsgögnin eru um 2.500 blaðsíður. Greint hefur verið frá ýmsum þessara gagna er farið var yfir þau í dómsal í síðustu viku á mbl.is.

Rauf skilorð

Karl Ingi sagði í málflutningi sínum að það færi ekki á milli mála að Jón Ingi hafi verið yfirmaður glæpahópsins.

Við ákvörðun um refsingu yfir honum beri að líta til þess að hann hafi rofið skilorð dóms sem féll í október árið 2023. Þá skuli draga gæsluvarðhald, sem hann hefur setið í frá því í apríl, frá refsingunni.

Farið er fram á fjögurra ára fangelsi yfir mönnunum tveimur sem taldir eru hafa verið hægri hendur Jóns Inga. Annar þeirra var dæmdur í árið 2022 í tveggja ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Jóni Ingi Sveinsson í héraðsdómi í ágúst.
Jóni Ingi Sveinsson í héraðsdómi í ágúst. mbl.is/Eyþór

Fimm ára fangelsi fyrir innflutninginn

Ákæruvaldið fer fram á fimm ára fangelsi yfir tveimur mönnum sem eru í gæsluvarðhaldi. Báðir eru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og að hafa tekið þátt í skipulagðri brotastarfsemi.

Annar þeirra var um borð í skemmtiferðaskipinu sem flutti rúm tvö kíló af kókaíni til landsins í apríl á þessu ári.

Hinn tók á móti fíkniefnunum og var handtekinn með þau.

Konurnar í þriggja ára fangelsi

Farið er fram á þriggja ára fangelsi yfir þremur konum sem ákærðar eru fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og að hafa tekið þátt í skipulagðri brotastarfsemi. 

Þá er farið fram á þriggja og hálfs árs fangelsi yfir manni sem játaði fyrir dómi að hafa verið í „bullandi neyslu“ á síðasta ári. Talsvert af fíkniefnum fundust á heimili hans.

Farið er fram á 24 mánaða fangelsisdóm yfir móður einnar sakbornings. Hún er talin hafa heimilað dóttur sinni að geyma og pakka fíkniefnum á heimili hennar í Breiðholti.

Yfir föður sakbornings í málinu er farið fram á tíu til tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa geymt og fengið greitt fyrir að geyma fíkniefni fyrir son sinn.

Þá er farið fram á sjö til tólf mánaða fangelsi yfir þremur öðrum mönnum fyrir þátt þeirra í málinu.

Einnig er gerð krafa um upptöku á umtalsverðu magni fíkniefna, vopna, fjármuna og hluta sem notaðir voru til starfseminnar.

Greint verður nánar frá málflutningi verjanda í málinu síðar í dag.

Karl Ingi flutti mál sitt í rúmlega tvær klukkustundir.
Karl Ingi flutti mál sitt í rúmlega tvær klukkustundir. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert