Funduðu að næturlagi vegna gruns um kvikuhlaup

Fulltrúar almannavarna og Veðurstofu funduðu í nótt.
Fulltrúar almannavarna og Veðurstofu funduðu í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bakvakt almannavarna fundaði með Veðurstofunni áður en tekin var ákvörðun um að ræsa ekki út allt kerfið í kjölfar þess að grunur lék á um að kvikuhlaup væri hafið við Sundhnúkagíga.

„Þegar mælarnir fóru af stað hjá Veðurstofunni þá hafði Veðurstofan samband við okkar menn sem meta það hvort setja þurfi kerfið af stað. Í nótt var hringt í bakvaktina, sem hafði samband við okkar sérfræðing sem fundaði með Veðurstofunni en það fór svo ekkert lengra en það,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna við mbl.is.

Virkjun „kerfisins“ felur í sér að kalla út samhæfingarstöð sem nú er staðsett á Laugavegi að sögn Hjördísar. Tvívegis hefur verið gripið til þess án þess að raunverulegt kvikuhlaup hafi verið farið af stað. Ekki kom til þess að þessu sinni.

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna.
Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í 20 mínútna fjarlægð 

Í samhæfingarstöð koma saman einstaklingar frá lögreglu, Rauða krossinum, Isavia, Landsbjörg, Isavia og fleiri aðilum sem eru hluti af almannavarnarkerfinu.

„Allir þessir aðilar eru með fólk á bakvakt. Okkar bakvakt er aldrei í meira en 20 mínútna fjarlægð frá samhæfingarstöð,“ segir Hjördís.

Að sögn hennar kom aldrei til þess að sms væri sent til íbúa Grindavíkur þar sem hvatt var til rýmingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka