Kom upp hlerunarbúnaði á heimili fyrrverandi

Þetta er í þriðja skiptið sem maðurinn fær nálgunarbann eftir …
Þetta er í þriðja skiptið sem maðurinn fær nálgunarbann eftir að hafa áreitt konuna. Hann hefur meðal annars játað að hafa komið upp hlerunarbúnaði á heimili hennar og hún telur hann hafa fylgst með ferðum sínum. Ljósmynd/Colourbox

Landsréttur hefur staðfest þriðja nálgunarbannið á karlmann sem hefur ítrekað áreitt og setið um fyrrverandi sambýliskonu sína. Maðurinn kom meðal annars upp hlerunarbúnaði á heimili hennar.

Rétturinn staðfesti nú fjögurra mánaða nálgunarbann, en manninum er bannað við að koma í námunda við heimili konunnar og afmarkast svæðið við 100 metra radíus. Þá er einnig lagt bann við að hann veiti henni eftirför, nálgist konuna á almannafæri, hringi í hana eða sendi henni skilaboð eða setji sig á einhvern annan hátt í samband við hana.

Löng saga umsáturseineltis og áreitis

Áður hafði maðurinn verið úrskurðaður í þriggja mánaða nálgunarbann í október í fyrra og svo aftur í sex mánuði í janúar á þessu ári. Þá hafði hann einnig undirritað svokallaða Selfossleið, en það er samkomulag um að hann muni halda sig frá heimili hennar og ekki fylgja konunni eftir eða setja sig í samband við hana.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur vegna nálgunarbannsins er farið yfir langa sögu umsáturseineltis og áreitis sem maðurinn er sagður hafa beitt konuna.

Fyrsta nálgunarbannið

Konan kærði manninn fyrst í september í fyrra, en þá sagði hún manninn ítrekað hafa áreitt hana eftir að þau slitu samvistum. Játaði maðurinn meðal annars að hafa verið með hlerunarbúnað á heimili konunnar og neitaði hann í fyrstu að skrifa undir Selfossleiðina.

Fjórum dögum síðar var óskað eftir aðstoð lögreglu en þá hafði maðurinn mætt á heimili hennar og barið á alla glugga. Síðar sama dag var aftur tilkynnt um að hann væri mættur á heimili konunnar. Undirritaði maðurinn í skýrslutöku hjá lögreglu Selfossleiðina.

Annað nálgunarbannið

Sem fyrr segir var maðurinn úrskurðaður í nálgunarbann í október, en þegar það rann út byrjaði maðurinn strax aftur að áreita konuna og féllst lögreglustjóri á að setja manninn í áframhaldandi nálgunarbann, en nú í hálft ár. Sakaði konan manninn meðal annars um að hafa brotið rúðu í hesthúsi sem hún átti, en hann neitaði því.

Þá náði konan myndum af manninum keyra í tvígang fram hjá húsi hennar í febrúar, en hann vildi ekki svara lögreglu þegar hann var spurður um ástæður fyrir akstrinum. Maðurinn hélt einnig áfram að setja sig í samband við konuna þrátt fyrir nálgunarbannið.

Virðist fylgjast með ferðum hennar

Eftir að nálgunarbannið rann út fór maðurinn svo að senda henni skilaboð á ný og áreita hana. Aftur var hann tekinn í skýrslutöku hjá lögreglu og neitaði að undirritað fyrrnefnda Selfossleið. Í kjölfarið var þriðja nálgunarbannið staðfest af lögreglustjóra, nú í fjóra mánuði. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti það nálgunarbann og nú hefur Landsréttur einnig gert það.

Í úrskurði héraðsdóms kom fram að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa margítrekað raskað friði konunnar með jöfnu millibili. Gerir hann það með símtölum, skilaboðum og tölvupóstum, auk þess að hafa áreitt foreldra hennar og bróður með tölvupóstum. Hefur konan sagt að hún óttist manninn og að hann fylgist greinilega með ferðum hennar. Þannig hafi hann vitað hvar hún væri stödd um verslunarmannahelgina þegar annað nálgunarbannið rann út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka