Kona með hníf og lítið barn yfirbuguð

Lögreglan óttaðist að konan myndi vinna sjálfri sér og barninu …
Lögreglan óttaðist að konan myndi vinna sjálfri sér og barninu skaða. Loks tókst að yfirbuga hana og sakaði hvorugt. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, auk sérsveitar ríkislögreglustjóra, var í hádeginu í dag kölluð eftir að tilkynnt var um konu í miklu ójafnvægi fyrir utan hús í Sólheimum í Reykjavík. Konan var með lítið barn meðferðis og óttast var að hún myndi vinna því og sjálfri sér skaða, en konan var með hníf í hendinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni vegna aðgerða í Sólheimum í hádeginu.

Var lögreglan með mikinn viðbúnað vegna málsins og voru meðal annars kallaðir til samningamenn frá ríkislögreglustjóra.

Eftir töluverðar samningaviðræður tókst loks að yfirbuga konuna, en hvorki hana né barnið sakaði í aðgerðunum.

Í framhaldinu var konunni komið undir læknishendur og barninu í umsjá barnaverndaryfirvalda. Lokað var fyrir umferð um Sólheima á meðan aðgerðum lögreglunnar stóð, en lokunum var aflétt um eittleytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka