„Það er engin ákveðin hreyfing í deilunni“

Atkvæðagreiðsla félaga í Læknafélagi Íslands um nýja verkfallsboðun hefst síðdegis …
Atkvæðagreiðsla félaga í Læknafélagi Íslands um nýja verkfallsboðun hefst síðdegis í dag, en gert er ráð fyrir að niðurstöður hennar liggi fyrir síðar í vikunni. Ljósmynd/Colourbox

Samninganefndir læknafélags Íslands og ríkisins hittust á vinnufundi í morgun, en fundinum er nú lokið. Ekki var um að ræða eiginlegan samningafund og ekki hefur enn verið boðað til nýs samningafundar í deilunni.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, gerir þó ráð fyrir að boðað verði til samningafundar á allra næstu dögum, enda sé virkt samtal í gangi. Hún er ánægð með vinnufundinn í morgun. 

Ég myndi segja að þetta hafi verið góður fundur, en það er engin ákveðin hreyfing í deilunni sem hægt er að segja frá, segir Steinunn í samtali við mbl.is. 

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands, gerir ráð fyrir að niðurstöður …
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands, gerir ráð fyrir að niðurstöður atkvæðagreiðslu liggi fyrir í lok vikunnar. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Colourbox

Niðurstaða liggur fyrir í lok vikunnar

Atkvæðagreiðsla félaga í Læknafélagi Íslands um nýja verkfallsboðun hefst síðdegis í dag, en gert er ráð fyrir að niðurstöður hennar liggi fyrir síðar í vikunni. Verði verkfallsboðun samþykkt hefjast verkföll lækna þann 25. nóvember næstkomandi, náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Steinunn segist gera ráð fyrir að að verkfallsboðun verði samþykkt, miðað við hljóðið í félagsmönnum, en fyrri verkfallsboðun var samþykkt með tæpum 93 prósentum atkvæða.

Þau tíðindi bár­ust fé­lags­mönn­um Lækna­fé­lags­ins á aðal­fundi þess á föstu­dag­inn að ís­lenska ríkið teldi fyrri boðun verk­falls ólög­mæta. Því gripið til þess ráðs að kjósa aftur um nýtt aðgerðarplan. Útspil ríkisins hleypti hins vegar illu blóði í félagsmenn.

Nýtt aðgerðarplan gerir ráð fyrir harðari aðgerðum og segir Steinunn það eingöngu til að koma til móts við athugasemdir ríkisins. „Við neyðumst til þess og okkur þykir það mjög leitt.“

Harðari aðgerðir til að mæta kröfum ríkisins

Harðari aðgerðir snúa aðallega að Landspítalanum, en gerðar voru athugasemdir við að boðuð væru verkföll á einstaka deildum í stað þess að boða verkföll á öllum spítalanum samtímis.

„Þannig í staðinn fyrir að taka verkföll dag frá degi á mismunandi deildum þá þurfum við að taka verkföll á öllum Landspítalanum í einu. Eða vera með aðgerðir samtímis, sem er töluvert þyngra en við vorum búin að leggja upp með.“

Steinunn segir það mjög miður þar sem læknar hafi viljað fara varlega af stað, enda geri þeir sér grein fyrir að þeir séu að sinna viðkvæmri þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka