Tíu börn liggja enn á spítala, þar af tvö á gjörgæslu, vegna E. coli-smits sem kom upp í leikskólanum Mánagarði fyrir um tveimur vikum.
Þetta staðfestir Valtýr Stefánsson Thors, yfirlæknir barnalækninga við Landspítalann, í samtali við mbl.is.
Smitið hefur verið rakið til blandaðs nautgripa- og kindahakks, sem börnin fengu í matinn þann 17. október.
Valtýr segir ástand þeirra barna sem liggja á spítalanum og á gjörgæslu vera stöðugt. Einhver börn hafi verið útskrifuð af deildinni og önnur hafi þurft að leggjast inn.
Liðlega fjörutíu börn á leikskólanum hafa greinst með E. coli-sýkingu til þessa og Valtýr segir um 20-25 börn nú vera undir eftirliti í tengslum við sýkinguna.