Það verður suðaustan hvassviðri eða stormur við Faxaflóa og Breiðafjörð seinnipartinn í dag.
Veðrið getur verið varasamt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind, að því er segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Gul viðvörun tekur gildi á Breiðafirði klukkan 13 í dag og verður hún í gildi til klukkan 21 í kvöld.
Í dag er spáð suðaustan og sunnan 10 til 18 metrum á sekúndu, en 13-20 m/s vestanlands um tíma seinnipartinn. Lengst af verður þurrt á Norður- og Austurlandi, annars rigning eða súld. Bætir í úrkomu í kvöld. Hiti verður á bilinu 7 til 16 stig, hlýjast fyrir norðan.
Suðvestlægari átt verður í nótt. Minnkandi sunnanátt á morgun, 8-13 m/s norðvestanlands um hádegi, annars hægari vindur. Víða verður bjart, en stöku skúrir vestan til. Hiti verður á bilinu 1 til 8 stig. Austlægari átt verður síðdegis og þykknar upp. Fer að rigna annað kvöld og bætir í vind við suðurströndina.