Líkur á vatnavöxtum og varað við skriðum

Mýrdalsjökull. Talsverðri úrkomu er spáð aðfaranótt miðvikudags á Reykjanesi, Suðurlandi …
Mýrdalsjökull. Talsverðri úrkomu er spáð aðfaranótt miðvikudags á Reykjanesi, Suðurlandi undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli, sem og á sunnanverðum Vatnajökli, mbl.is/Sigurður Bogi

Í kvöld munu úrkomubakkar leggjast yfir sunnanvert landið og ná inn til sunnanverðra Austfjarða og sunnanverðra Vestfjarða.

Meginvindátt verður úr suðri. Talsverðri úrkomu er spáð aðfaranótt miðvikudags á Reykjanesi, Suðurlandi undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli, sem og á sunnanverðum Vatnajökli, þar sem ákefð um nóttina gæti farið allt að 17 mm/klst. Úrkoman verður í formi rigningar, að því er segir í tilkynningu skriðuvaktar Veðurstofu Íslands.

Vatnavextir, skriður og grjóthrun

„Gert er ráð fyrir að jarðvegur verði vatnsmettaður og nái ekki að þorna milli úrkomuskeiða. Þar sem spáin sýnir óvenjuháan hita miðað við árstíma hefur frost einnig farið úr jörðu, og snjólínan er há í fjöllum – ef snjór hefur ekki þegar bráðnað og aukið vatnsmettun jarðvegs. Því er ekki útilokað að á næstu dögum verði vatnavextir í ám og lækjum, farvegabundnar aurskriður, auk jarðvegsskriða og grjóthruns,“ segir í tilkynningunni.

Skriðuvaktin minnir fólk á að sýna aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum, horfa í kringum sig og forðast að dvelja lengi innan farvega. Auk þess geta skriður fallið skyndilega, jafnvel eftir að mesta ákefð rigningar er afstaðin.

Fólk hvatt til að hafa samband

Til að hægt sé að hafa yfirsýn yfir skriðuaðstæður á landinu er fólk hvatt til þess að tilkynna skriðuföll til skriðuvaktar Veðurstofunnar, sem getur svo metið aðstæður að nýju. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á afgreiðslutíma skiptiborðsins eða senda tölvupóst með upplýsingum á skriduvakt@vedur.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka