Eggjastokkur tekinn án samþykkis en fær ekki miskabætur

Konan fór í aðgerðina árið 2015 á Landspítalanum.
Konan fór í aðgerðina árið 2015 á Landspítalanum. mbl.is/Unnur Karen

Sjúkratryggingar Íslands þurfa ekki að greiða konu miskabætur vegna aðgerðar sem hún fór í árið 2015, en þá var vinstri eggjastokkur konunnar fjarlægður án hennar samþykkis. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar, en dómurinn var kveðinn upp í dag.

Landsréttur hafði dæmt Sjúkratryggingar til að greiða konunni 1,5 milljónir í miskabætur og sneri rétturinn þar með við dómi héraðsdóms sem hafði sýknað Sjúkratryggingar. Konan og Sjúkratryggingar höfðu áður gert með sér sátt um skaðabætur upp á 9,5 milljónir vegna aðgerðarinnar, en sáttin náði ekki til miskabótakröfunnar.

Deilt er um skilning á lögum um sjúklingatryggingu

Fyrir Hæstarétti var tekist á um hvernig skilja bæri lög frá árinu 2000 um sjúklingatryggingu, en þau höfðu meðal annars verið sett til að bæta réttindi sjúklinga til að sækja bætur þótt ekki væri um ásetning eða stórfellt gáleysi að ræða.

Taldi konan að í orðalagi laganna væri verið að vísa til reglna skaðabótalaga í heild sinni. Sjúkratryggingar töldu hins vegar að eingöngu væri vísað til eins kafla í skaðabótalögum. Féllst Hæstiréttur á málflutning Sjúkratrygginga, en með því telst bótagrundvöllurinn í skaðabótalögum undanskilinn því kerfi sem komið var á fót með lögunum um sjúklingatryggingar.

Voru Sjúkratryggingar því sýknaðar, en málskostnaður á öllum dómstigum var felldur niður og gjafsókn veitt.

Var liður í undirbúningi fyrir glasafrjóvgunarmeðferð

Í málinu var deilt um kviðarholsspeglun, sem var liður í undirbúningi fyrir glasafrjóvgunarmeðferð sem konan ætlaði að fara í. Hún átti að baki langa sögu um sjúkdóminn endómetríósu og hafði meðal annars farið í fleiri kviðarholsspeglanir og fengið sýkingu í grindarhol eftir eggheimtu.

Í aðgerðinni átti að brenna endómetríósu, fjarlægja stórt endómetríóma á hægri eggjastokk og eftir atvikum hægri eggjastokkinn sjálfan, ásamt því að leysa úr samvöxtum í kviðarholi.

Taldi nauðsynlegt að fjarlægja báða eggjastokka

Í aðgerðinni sáust hins vegar einnig minni endómetríóma á vinstri eggjastokki og fór það svo að læknirinn taldi nauðsynlegt á meðan aðgerðinni stóð að fjarlægja einnig vinstri eggjastokkinn og voru því báðir eggjastokkar fjarlægðir, en um var að ræða óafturkræfa aðgerð.

Þetta hafði í för með sér ótímabær tíðahvörf konunnar, en hún hafnaði því alfarið við meðferð málsins að hafa veitt samþykki fyrir því að vinstri eggjastokkurinn yrði fjarlægður.

Fyrir lægri dómsstigum höfðu matsmenn verið fengnir til að yfirfara málið, en um var að ræða kvensjúkdómalækni og lögmann. Í matsgerð þeirra var því slegið föstu að meðferðin við að taka vinstri eggjastokkinn hefði ekki talist bráðnauðsynleg.

Landsréttur komst í fyrra að þeirri niðurstöðu að hvergi í gögnum sem lágu fyrir um aðdraganda aðgerðarinnar hafi verið getið þess að fjarlægja ætti eggjastokkinn við aðgerðina. Það hafi því verið atriði sem konan hefði sjálf átt að fá ráðið um. Taldi Landsréttur ósannað að konan hefði samþykkt það og því hafi verið farið þvert gegn þeim tilgangi með aðgerðinni að undirbúa hana undir glasafrjóvgunarmeðferðina.

Sem fyrr segir sneri Hæstiréttur við niðurstöðu Landsréttar og sýknaði í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert