„Geir fær fljúgandi start“

Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Sú óvenjulega staða er uppi á íslenskum bókamarkaði að ævisaga Geirs H. Haarde er í efsta sæti á metsölulista Eymundssonar. Er það óvenjulegt af tveimur ástæðum.

Annars vegar þeirri að spennusagnahöfundurinn Arnaldur Indriðason hefur um langa hríð trónað á toppi metsölulistans eftir útgáfu bóka sinna og hins vegar að ævisögur hafa átt undir högg að sækja þegar kemur að bóksölu undanfarinn áratug.

Páll Valsson, útgáfustjóri hjá Bjarti Veröld, segir gengi bókarinnar ánægjulegt.

„Þetta er vikan sem Arnaldur hefur gjarnan setið í toppsætinu óhaggaður, því hann kemur alltaf út 1. nóvember, en nú kemur Geir inn með látum og hefur selst gríðarlega vel,“ segir Páll.

Páll Valsson
Páll Valsson Mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki eingöngu hrunbók 

Hann segir það nokkur tíðindi að ævisaga fái svo góðar viðtökur.

„Ævisögurnar hafa átt undir högg að sækja. Netið hefur breytt þessu öllu og ævisögur hafa ekki sama heimildargildi og áður fyrr. En þetta er mjög ánægjulegt því fyrir tíu árum eða svo voru ævisögur í hópi mest seldu bóka og nú fær Geir fljúgandi start,“ segir Páll. 

Að sögn Páls snýr bókin ekki eingöngu að hrunmálum heldur fer Geir einnig yfir dramatíska hluti úr æsku sinni.   

„Þetta er ekki bara hrunbók, alls ekki, þetta er alvöruævisaga,“ segir Páll. 

Geir trónir á toppnum í nýjasta metsölulista Eymundssonar.
Geir trónir á toppnum í nýjasta metsölulista Eymundssonar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert