Snörp orðaskipti um öryrkja sem sitja á Alþingi

Inga Sæland er allt annað en sátt við stjórnanda Spursmála þegar hann varpar fram þeirri spurningu hvað valdi því að fólk sem lengi hefur verið á örorkubótum geti unnið langan vinnudag á Alþingi.

Starfsgeta til þingstarfa en annars ekki

Þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en þar spyr Stefán Einar Ingu út í það hvernig á því standi að fólk sem þegið hafi örorkubætur um lengri eða skemmri tíma geti tekið að sér mjög vandasöm og krefjandi verkefni á borð við þingmennsku, sem kalli gjarnan á langa viðveru og álag.

Margir spyrji sig ef fólk sé í stöðu til þess, gæti það unnið önnur störf sem jafnvel kalla á minni viðveru og miklu minna andlegt og líkamlegt álag.

Þið talið máli öryrkja í samfélaginu

Og eldra fólks og barna.

En þið eruð bæði í þeirri stöðu að þið hafið bæði lengi verið á örorkubótum og ég hef þekkt Guðmund Inga og hann hefur verið öflugur í félagsstarfi í VR og víðar. Maður veltir fyrir sér að þið eruð hamhleypur til verka, þið eruð einhverjir duglegustu þingmenn sem við eigum.

„Ég var ekki lengi á örorkubótum, nei. Mér fannst ég aldrei vera fötluð.“

En Guðmundur Ingi var það áratugum saman. Hvað segir það okkur um örorkukerfið að fólk geti þegið fullar bætur frá ríkinu árum eða áratugum saman en þegar það kemst inn á þing þá verður það duglegasta fólkið, getur augljóslega unnið mjög erfiða vinnu, langt fram á kvöld og nætur, þeyst um kjördæmin þver og endilöng. Er þetta kerfi ekki eitthvað brogað þegar við erum að borga fólki bætur sem getur bara vel unnið?

„Sko, ég myndi nú kannski halda það að það sé ýmislegt sem ég get ekki gert út af minni fötlun. En talað get ég og dugleg er ég.“

Þú gætir unnið í næturútvarpinu á RÚV.

„Og fjögurra barna móðir er ég líka og var ein oft með alla krakkana þótt ég vissi ekkert að mínir krakkar voru löngu farnir en voru í staðinn því ég sá ekkert. En það breytir ekki þeirri staðreynd að ég hef alltaf  verið dugleg og iðin og fylgin mér og vildi ekki viðurkenna að ég væri fötluð því ég á mjög fatlaðan bróður. Og mér fannst ég aldrei neitt fötluð. En ég var í einhverri endurhæfingu á Reykjalundi því ég var með ónýtt bak, því ég var ellefu ára gömul farin að vinna í frystihúsi...“

Spurt og svarað. Inga Sæland er nýjasti gestur Spursmála þar …
Spurt og svarað. Inga Sæland er nýjasti gestur Spursmála þar sem leiðtogarnir mæta hver á fætur öðrum til leiks. mbl.is/Hallur Már

„Veit eiginlega ekki hvað vakir fyrir þér“

Ég er að tala um þetta almennt séð, eins og Guðmund samstarfsmann þinn. Ef fólk getur áratugum saman verið á bótum en svo fer það inn á þing, er það eðlisólíkt öðrum störfum? Það hljóta að vera til önnur störf í samfélaginu, hvort sem það er skrifstofuvinna eða hvað annað..

„Ég veit eiginlega ekki hvað vakir fyrir þér, ef ég á að segja alveg eins og er.“

Ég er bara að spyrja.

„Ég veit það ekki, sko. Þú ert að fara inn á þessa línu þar sem fólk segir að það sé verið að misnota þetta kerfi. Og fullt af fólki, sko. Ég segi í ræðustól Alþingis að það býr mikill mannauður í öryrkjum eins og öllum öðrum...“

Þið hafið barist á hæl og hnakka gegn raunfærnimatinu.

„Þess vegna höfum við núna í sex ár barist fyrir því að hjálpa öryrkjum við að komast út að vinna.“

Þið hafið verið á móti raunfærnimatinu, þið hafið barist á hæl og hnakka inni í þinginu...

„Ertu að tala um starfsgetumatið?“

Skammarlegt almannatryggingakerfi

Já.

„Er ekki í lagi með þig. Að sjálfsögðu erum við á móti þessu starfsgetumati. Það er ekkert á bak við það. Það er bara 100% jákvætt að fá starfsgetumat. En það er ekki nóg að fara í starfsgetumat og segja, heyrðu vinur, þú ert hamhleypa í 40% starf en það er bara ekkert fyrir þig að hafa og það vill enginn ráða þig í vinnu og við vitum ekkert hvað á að gera við þig og þú færð bara 60% núna af almannatryggingunum þínum og það er það sem þau eru að reyna að flýta sér við að koma með handónýtt, skammarlegt almannatryggingakerfi. Það er skömm af þessu.“

En bíddu, nú erum við með inni á þingi þennan tiltekna þingmann, samflokksmann þinn sem getur unnið 100% vinnu og miklu meira en það. Ef hann dettur út af þingi þá fer hann bara aftur á fullar bætur. Hvers konar...

„Hvað veist þú um það hversu erfitt það er Guðmundi Inga Kristinssyni þegar við erum í kvöldvinnu, þegar hann er að leggjast með krampa upp í sófa, viltu endilega draga það fram. Hann er spengdur frá hnakka niður í rófu eftir tvö alvarleg bílslys, um hvað ertu að tala? Maðurinn er með hækjur. Viltu ekki bara setja hann í umönnunarstarf niður á Landspítala.“

Ég þekki fólk í hjólastól sem vinnur fullan vinnu. 

„Ég á bara ekki eitt einasta aukatekið orð.“

Ég er bara að segja, er þetta kerfi ekki eitthvað skakkt þegar við horfum upp á þetta, vegna þess að...

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skakkt kerfi

„Þetta kerfi er mjög skakkt, það er vegna þess, ég skal segja þér það...“

Vegna þess að þið komið svo sífellt fram með það hvernig megi skattleggja fólk, taka af því persónuafslátt af fólki sem vinnur í sveita síns andlits...

„Nei, nei. Ég er líka með hugmyndir um það hvernig við eigum að virkja öryrkjana sem þú ert að tala um og eru kannski svo heppnir að hafa líkamlega burði til þess að gera eitthvað, til þess að leggja sitt af mörkum. Við fengum skýrslur frá Hollandi, við fengum skýrslu frá Svíþjóð, sem sýna það að Svíarnir voru að reyna það hvernig við getum stigið út úr þessum fasta ramma þar sem allir eru komnir inn á þetta kerfi, hvað getum við gert?“

Starfsgetumatið er ætlað til þess.

„Starfsgetumatið er bara sérfræðingar að sunnan, takk fyrir.“

Við erum með hundruð einstaklinga sem eru að vinna svarta vinnu, fólk sem eru skilgreindir öryrkjar og þiggja fullar bætur frá ríkinu.

„Bíddu, ég ætla að segja þér frá þessu. Viltu ekki að ég segi þér frá þeim lausnum sem við höfum verið að mæla fyrir í sex ár, og bráðum sjö og margbúin að tala um það og það er núna fyrst sem mér heyrist að vinir okkar í flestum flokkum eru að átta sig á því að það er allt satt sem við erum að segja. Að það var í rauninni sagt, hvað er það sem við getum gert til þess að fá fólk sem jafnvel er eins og þú veist andlega veikt fólk sem er inni á þessu kerfi, líkamlega burðugt til að gera ýmislegt. Hvernig getum við virkjað þau og hjálpað þeim út á vinnumarkaðinn, fólk lokast inni, einangrast, erfiðara að komast út eftir því sem þú ert einangraður lengi.“

Gerum eins og Svíarnir

Það er líka fólk sem er líkamlega hamlað sem getur unnið vinnu sem kallar ekki á líkamlega vinnu...

„Hvað getum við gert? Við ætlum að verðlauna ykkur. Við ætlum að verðlauna ykkur eins og Svíarnir gerðu og eins og Hollendingarnir gerðu. Og það hlýtur að geta gilt hjá okkur líka. Við ætlum að bjóða ykkur út á vinnumarkaðinn. Að reyna að finna á ykkar eigin forsendum eitthvað sem þið treystið ykkur til að gera, ekki eitthvað sem einhver karl uppi í einhverju ráðuneyti eins og Steingrímur J, ákveður að þú getir gert í einhverju starfsgetumati. Þú átt að meta þig sjálfur til starfsgetu. Þú munt borga þína skatta og þínar skyldur inn í samfélagið.“

En það er bara fullt af fólki sem mun ekki gera það.

„32% af þeim sem gerðu þetta í Svíþjóð skiluðu sér ekki aftur inn á kerfið. Skiluðu sér ekki aftur inn á almannatryggingakerfið. Þetta er allt að vinna, engu að tapa og þess vegna get ég ekki skilið hvernig stendur á því...“

Ertu þá að segja mér að það séu 32% þeirra sem eru á örorkubótum núna sem gætu bara einfaldlega verið úti á vinnumarkaðnum og unnið fyrir sér?

„Nei, þú misskilur. 32% af þeim sem reyndu fyrir sér. Það voru ekki 32% af þeim sem voru í kerfinu.“

Hvað er þetta stór hópur?

„Ég veit það ekki, skiluru. Það er blint í sjóinn rennt hversu margir myndu vilja virkilega reyna og langar til þess og þrá það að reyna og þið verðið ekki skert á almannatryggingakerfinu fyrr en þið eruð komin í ákveðnar tekjur, eins og 400 þúsund krónur, þá getið þið ekki ætlast til þess að vera að fá líka frá almannatryggingum. Og við viljum lyfta því upp.“

Það verður fróðlegt að sjá hvort þetta takist og hvort þið náið þessu í gegn.

Viðtalið við Ingu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert