Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, segist meira en hæfilega bjartsýnn á að samningar náist á milli Læknafélags Íslands og ríkisins áður en til verkfalla lækna komi. Félagar í Læknafélagi Íslands samþykktu í gær að hefja verkfallsaðgerðir þann 25. nóvember næstkomandi.
Komi hins vegar til verkfalla verður gripið til ákveðinna öryggisráðstafana á Landspítalanum, að sögn Runólfs. Dragist verkföll hins vegar á langinn komi það til með að hafa afleiðingar.
„Við erum með öryggisráðstafanir og annað sem er búið að kynna, en ef verkföll dragast á langinn, þá hefur það afleiðingar og þess vegna skiptir miklu máli að semja. Við bindum miklar vonir við það,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is.
„Ef þetta dregst eitthvað á langinn það geta biðlistar eftir skurðaðgerðum lengst en við viljum ekki sjá það,“ bætir hann við.
Félagar í Læknafélagi Íslands þurftu að greiða aftur atkvæði um verkfallsaðgerðir í vikunni eftir að þau tíðindi bárust aðalfundi félagsins á föstudag í síðustu viku að ríkið teldi fyrri boðun verkfalls ólögmæta. Hleypti útspil ríkisins illu blóði í félagsmenn.
Nýtt aðgerðarplan gerir ráð fyrir harðari aðgerðum en Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni það eingöngu gert til að koma til móts við athugasemdir ríkisins.
Harðari aðgerðir snúa aðallega að Landspítalanum, en gerðar voru athugasemdir við að boðuð væru verkföll á einstaka deildum í stað þess að boða verkföll á öllum spítalanum samtímis.
Í stað þess að fara í verkföll dag frá degi á mismunandi deildum fara því læknar sem starfa á Landspítalanum í verkföll á öllum deildum spítalans í einu.