Ekki þarf nema eitt eða tvö gos af svipaðri stærðargráðu og á sambærilegum stað og síðustu gos hafa orðið til þess að erfitt geti reynst að verja orkumannvirki í Svartsengi.
Athygli stjórnvalda þarf í auknum mæli að beinast að því að styrkja áfallaþol og viðbragðsgetu á öllum Suðurnesjum og þau verkefni munu meðal annars fela í sér stórar fjárfestingar til að styrkja raforkukerfið á svæðinu, aðgerðir til að bæta afhendingaröryggi hita og vatns fyrir alla íbúa og starfsemi á svæðinu. Þá er ekki ólíklegt að grípa þurfi áfram til margvíslegra fyrirbyggjandi aðgerða eftir því sem náttúran skipar, svo sem með byggingu fleiri varnargarða.
Þetta er meðal þeirra niðurstaðna sem kynntar eru í nýrri skýrslu forsætisráðherra um helstu verkefni stjórnvalda og mat á framtíðarhorfum vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga. Hefur skýrslunni verið dreift á Alþingi, en á sunnudaginn er ár liðið frá því að Grindavík var rýmd í tengslum við miklar náttúruhamfarir sem áttu eftir að ríða yfir bæinn.
„Ef fleiri en eitt til tvö gos, hliðstæð þeim sem orðið hafa undanfarna mánuði, verða á suðurhluta Sundhnúkagígaraðarinnar, mun reynast æ erfiðara að verja Svartsengi og Grindavík með hraunflæðivarnargörðum. Ef aftur gýs á norðurhluta raðarinnar mun hraun hins vegar leita með auknum þunga til norðurs, í átt að Reykjanesbrautinni, líkt og þekkt er,“ segir í skýrslunni, en vísað er í álit Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Varðandi mögulega hættu sem Reykjanesbrautinni stafar af hraunflæði vegna hugsanlegra gosa norðarlega á Sundhnúkagígaröðinni er í skýrslunni bent á að dældin sem liggur í Vogasveimnum svokallaða þyrfti að fyllast og hraun að byggjast upp á allstóra svæði áður en rennandi hraun næði að veginum.
„Á þessu svæði hefur slíkt ekki gerst undanfarin 13 þúsund ár. Í hliðstæðu hraunflæði og verið hefur í síðustu gosum þyrfti gossprungan að ná austur fyrir Vogasveiminn, um 3-4 km lengra til norðausturs en orðið hefur hingað til, til að hraunflæði næði yfir Reykjanesbraut. Slíkt myndi kalla á nýjan gliðnunaratburð og fæli í sér verulegt hraunflæði frá svæði sem hegðaði sér síðast með þeim hætti fyrir rúmlega 14 þúsund árum.“
Þá segir jafnframt í áliti Jarðvísindastofnunar að til að rennandi hraun muni ógna Reykjanesbæ eða Keflavíkurflugvelli þyrfti gos sem væri af áður óþekktri stærðargráðu á þessu svæði. „Líkur á slíku hljóti að teljast hverfandi litlar,“ segir í skýrslunni.