Blandaði sér í forsetakjör og fer nú sjálfur fram

Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingarinnar segir eðlilegt að menn velti vöngum yfir því þegar embættismenn í valdastöðum bjóði sig fram til Alþingis. Þó verði að hafa í huga að allir hafa rétt á að bjóða sig fram.

Mjög áberandi í risastórum málum

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fróðlegu viðtali við Víði í Spursmálum. Hann hefur verið gríðarlega áberandi í opinberu þjóðlífi á síðustu árum, m.a. á covid-tímanum en einnig í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesi, skriðuföll á Seyðisfirði og marga aðra stórviðburði.

Athygli vakti þegar Víðir blandaði sér i forsetakosningarnar fyrr á þessu ári og lýsti þar yfir stuðningi við Katrínu Jakobsdóttur, fráfarandi forsætisráðherra. Þau höfðu átt mikið saman að sælda í mörgum þeirra mála sem að ofan eru nefnd.

Víðir Reynisson og Katrin Jakobsdóttir.
Víðir Reynisson og Katrin Jakobsdóttir. mbl.is/samsett mynd

Var til skoðunar fyrir þremur árum

Hann segir að framboðið sem nú varð að veruleika hafi fyrst komið til tals fyrir þingkosningarnar 2021 en að þá hafi hann ekki talið tímabært að stíga skrefið.

„Þetta kom fyrst til tals og upp í hugann fyrir síðustu kosningar fyrir þremur árum og þá taldi ég þannig í stöðunni að við vorum á kafi í verkefnum að byggja upp kerfið og enn að vinna með covid-mál og eldgosin á Reykjanesi komin af stað og mikið í gangi og ég var ekki tilbúinn og mikið verk óunnið í því fannst mér,“ útskýrir Víðir.

Á einum af fjölmörgum upplýsingafundum almannavarna.
Á einum af fjölmörgum upplýsingafundum almannavarna. Ljósmynd/Almannavarnir

Kom hratt upp nú

Og hann bætir við.

„Nú kemur þetta tiltölulega hratt upp núna og ég hafði velt því fyrir mér ef til þess kæmi næsta vor eða næsta haust að þá ætlaði ég að hugsa málið þegar þar að kæmi en var ekki mikið að hugsa þetta fyrr en þetta gerist mjög hratt í sjálfu sér. En um leið og ég tek þessa ákvörðun þá bara stíg ég til hliðar og hætti öllum afskiptum af þessu starfi. Það vildi þannig til að ég var í fríi þegar þetta kemur upp og þessi ákvörðun er tekin þannig að ég kom aldrei aftur til starfa eftir að ég kom til baka úr þessu orlofi sem ég var í.“

Og ítrekar Víðir að það sé réttur hans að bjóða sig fram.

„Þannig að maður verður að geta, það er réttur okkar allra að taka þátt í stjórnmálum og það er réttur einstaklingsins að gera það og ef hann telur að hann geti lagt eitthvað að mörkum.“

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á einum …
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á einum af fjölmörgum fundum sem Víðir hefur farið fyrir á síðustu árum þar sem stórviðburðir hafa verið til umfjöllunar. mbl.is/Óttar

Opinberir starfsmenn hafa ríkari rétt

Er Víði þá bent á þá staðreynd að þótt allir hafi rétt á að bjóða sig fram þá séu í gildi sérlög í landinu fyrir opinbera starfsmenn. Þeir geta boðið sig fram og gegnt opinberum störfum á grundvelli þátttöku í stjórnmálum en haldið starfi sínu án afleiðinga í allt að átta ár, eða tvö kjörtímabil. Slíkur réttur er hvergi til staðar á hinum almenna vinnumarkaði.

Opinberir embættismenn hafa reyndar ríkari rétt en almenningur því þið getið farið í átta ár úr ykkar starfi og gengið inn í það aftur.

„Já, mér finnst það mjög sérstök löggjöf en eins og þú segir, hún er mannanna verk og kannski þarf bara að breyta henni. En það er einmitt þannig að opinberir starfsmenn hafa ríkari rétt til að snúa aftur til fyrri starfa. Ég get verið skýr með það að það væri mjög skrýtið ef ég færi inn á þing núna og eftir fjögur ár segði ég þetta er ekkert skemmtilegt, og það er ekkert gaman  í þessu hérna og ég nenni ekki að leika hérna og ætla bara að fara að gera eitthvað annað og ætlaði bara að fara í mitt gamla starf. Það væri mjög skrítið og miklu skrítnara en að ég fari úr því starfi sem ég er, slíti þar öll tengsl við það og fari í pólitíkina.“

Þessar kosningar koma brátt upp en þú hefur líka blandað þér í aðrar kosningar. Það voru forsetakosningar hérna 1. júní síðastliðinn. Þar stígur þú fram, ásamt reyndar Þórólfi fyrrum sóttvarnalækni.

„Og fjölmörgu fólki öðru.“

Ja, þið lýsið yfir stuðningi við einn frambjóðanda í þessu og þú verandi í þessari afskaplega viðkvæmu og valdamiklu stöðu. Dómurum, saksóknurum, lögreglustjórum myndi aldrei detta í hug að stíga þetta skref. Hafa þessar markalínur verið nægilega skýrar í ljósi þess hvað þér er falið mikið umboð á þjóðarsviðinu.

„Það er náttúrulega þannig að ég er sviðsstjóri og yfirlögregluþjónn hjá embætti þar sem yfir mér er ríkislögreglustjóri sem ber faglega ábyrgð á öllu því sem ég er að gera og þar af leiðandi er ég kannski pínu í annarri stöðu en dómarar og lögreglustjórar.“

Hugsaði málið

En þú ert andlit og þér er veitt gríðarlegt aðgengi að fjölmiðlum.

„Já, það er alveg rétt og ég hugsaði þetta mikið, sérstaklega þegar gagnrýnin fór að koma fram. Og ég las mikið af þessari gagnrýni að fólki, sem ég tek mikið mark á, fannst þetta ekki rétt og það er bara réttur okkar allra að hafa það og það getur vel verið að það eigi að vera eitthvað skýrari mörk með þessi mál en núna er það bara þannig að það er öllum heimilt að taka þátt í stjórnmálum.“

Og það  efast enginn um það.

„Nei, nei og við erum, ég held það séu einir sex lögreglumenn í framboði, núverandi og fyrrverandi lögreglumenn sem eru í framboði en auðvitað skil ég vel þá umræðu að einstaklingur sem hefur verið settur í þá stöðu að vera í forsvari og svara fyrir ýmsar aðgerðir, þótt ég hafi ekki borið ábyrgð á öllu því sem hefur verið.“

Viðtalið við Víði Reynisson má sjá í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka