„Erum með ákveðnar viðbragðsáætlanir“

Orkuverið í Svartsengi.
Orkuverið í Svartsengi. mbl.is/Eyþór

„Við erum alltaf viðbúin og við erum búin að vera að tala um þetta, ekki bara síðan það byrjaði að gjósa heldur erum við búin að vera að undirbúa okkur síðan jarðhræringar hófust árið 2020,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.

Í gær kom ný skýrsla forsætisráðherra um helstu verkefni stjórnvalda og mat á framtíðarhorfum vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga.

Segir í skýrslunni að ekki þurfi nema eitt eða tvö gos af svipaðri stærðargráðu og á sambærilegum stað og síðustu gos hafa orðið til þess að erfitt getur reynst að verja orkumannvirki í Svartsengi sem rekið er af HS Orku.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku. Ljósmynd/HS Orka

Með ákveðnar viðbragðsáætlanir

Í samtali við mbl.is segist Tómas ekki hafa náð að sjá skýrslu forsætisráðherrans enn sem komið er en tekur hann fram að fyrirtækið sé vel undirbúið. Til að mynda hafi HS Orka haft frumkvæði að því að farið yrði að kortleggja svæðið og hefja undirbúning þegar gos hófst í Geldingadölum á sínum tíma.

„Við höfum verið undirbúin allan tímann og erum með ákveðnar viðbragðsáætlanir ef að hraunflæði kemur. En auðvitað hafa garðarnir sýnt að þeir hafi varið Svartsengi. Ég hef ekki séð þessa skýrslu en eins og þróunin hefur verið þá hafa garðarnir haldið og með þeim viðbótum sem hafa verið gerðar. Ég sé ekki að það sé bráð hætta eins og þróunin hefur verið, að þetta sé einhver sviðsmynd sem sé líkleg,“ segir Tómas.

Áætlanir til að lágmarka skaða

Þá bendir hann einnig á að þróun eldgosanna á Sundhnúkagígaröðinni hafi verið með þeim hætti að þau hafi færst norðar og að í síðasta gosi hafi hraunflæði verið fjarri Svartsengi.

Hann útilokar þó ekki að gos gæti komið á suðurhluta Sundhnúkagígaraðarinnar.

„Þá þarf bara að bregðast við því og við höfum ákveðnar viðbragðsáætlanir en það er þá bara til að lágmarka skaða. Við höfum líka verið að gera áætlanir með ríkinu um hvað við gerum ef að hraun fer aftur yfir mannvirki og við þurfum að stoppa það með vatni en við náttúrulega vonum að það verði ekki niðurstaðan.“

Undirbúin fyrir allar verstu sviðsmyndir

Í skýrslunni segir að það muni reynast æ erfiðara að verja Svartsengi og Grindavík með hraunflæðivarnargörðum ef fleiri en eitt til tvö gos, hliðstæð þeim sem orðið hafa undanfarna mánuði, yrðu á suðurhluta Sundhnúkagígaraðarinnar.

Tómas segir fyrirtækið vera með viðbragðsáætlanir við því. Nefnir hann að mögulega geti komið upp ákveðin tilfelli þar sem einhver hluti borhola eða annað myndi verða fyrir hrauni en að fyrirtækið telji það ólíklegt eins og er.

„Auðvitað verður maður að vera undirbúinn fyrir allar verstu sviðsmyndir en þetta er eitthvað sem ég held að sé ólíklegt og okkar sérfræðingar segja að sé ólíklegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert